SKE: Listin er krókaleið að kynlífi; bugðóttur vegur að peningum; hlykkjóttur stígur að virðingu og sátt – tvímælalaust: þráðbeinn þjóðvegur að firringu, féleysi og volæði. Fullviss er ég um það að fáir myndu nokkurn tímann sækjast eftir þeim lágkúrulega titli „listamaður“ – væri það ekki fyrir sjálfsfróun, atvinnuleysisbætur og fíkniefni … svo eru það, hins vegar, sumir listamenn sem virðast sniðganga þennan bugðótta veg að mestu. Meðlimir hljómsveitarinnar Quarashi tilheyra þeim hópi. Þeim hefur einatt verið tekið opnum örmum af íslensku samfélagi; hafa alla tíð haft ofan í sig og á; og – sem best ég veit, og á meðan hljómsveitin flaug hvað hæst – ekki þurft að betla samfarablossa frá eigin sigggrónum höndum: Nei, nei, það elska allir Quarashi … Fyrr í vikunni bauð ég Sölva og Steina í heimsókn í bóhemsbústaðinn minn í miðbæ Reykjavíkur. Við ræddum djammið, nýja skólann, markaðsfræði og margt, margt fleira ..
Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandur: Sölvi Blöndal og Steinar Albumm Fjeldsted
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson
(Klukkan slær fimm á mánudegi og Sölvi, stundvísin uppmáluð, hringir dyrabjöllunni. Ég býð honum inn og hann tillir sér í svarta flaeulssófann inn í stofu. Eftir stuttar samræður hringir dyrabjallan og Steini gengur inn. Hann ber léttúð hjólabrettakappans utan á sér: „Blessaður!“ Á meðan ég helli upp á kaffi inn í eldhúsi fær Steini sér sæti við hliðina á Sölva. Ég skil óvart diktafóninn í gangi á stofuborðinu og hann tekur upp samræður þeirra. Þeir virðast vera sérdeilis hrifnir af sófanum.)
Steini: Þetta er „cozy stuff.“
Sölvi: Þetta er rosa „cozy.“
Steini: Mig langar helst úr fötunum og leggjast.
Sölvi: Þetta er mjög erótískur sófi.
Steini: Já.
Sölvi: Ég veit ekki hvernig mér líður með að sitja hérna.
Steini: Það er það fyrsta sem ég hugsaði.
Sölvi: Við sitjum hér í einhverjum …
(Sölvi klárar ekki setninguna, flissar bara strákslega en var, að öllum líkindum, að fara segja „líkamsvessum.“ Andi pönksins svífur yfir vötnum. Ég legg frönsku pressuna á stofuborðið og stilli upp þremur bollum. Á meðan ég og Steini ræðum aðeins Albumm.is á, skoðar Sölvi símann sinn. Hann virðist vera upptekinn maður.)
Steini: Mig langar helst að vera nakinn í þessum sófa.
SKE: Já, þetta er svona Playboy sófi.
(Steini hlær. Þetta er inflúensa hlátur. Bráðsmitandi.)
SKE: Hér sit ég oft nakinn en í sokkum og þið eruð alltaf velkomnir … Hvernig var í Eyjum?
Steini: Það var stuð, maður. Fólk í sleik. Allt eins og það á að vera.
SKE: Ég sá myndbandið sem þið settuð á netið stuttu eftir tónleikana. Sviðið var í algjöru rústi.
Sölvi: Hössi kastaði sér á trommusettið.
Steini: Hann tók dýfu á settið, tvo og hálfan metra upp í loftið.
SKE: Hvernig var „crowd-ið“?
Steini: Geðveikt. Það er geðveikt að spila fyrir framan 15.000 manns í dalnum – og allir „going nuts!“
(Quarashi hefur spilað tvívegis á Þjóðhátíð: 2014 og 2016. Ég helli upp á kaffi.)
SKE: Þið fögnuðuð tvítugsafmæli í ár.
Steini: Já, fyrsta smáskífan, Switchstance, kom út haustið 1996.
SKE: Hver er helsta breytingin sem hefur átt sér stað síðan þá?
(Steini hlær og gefur til kynna, með þessum orðlausu, ósjálfráðu hljóðum, að ýmislegt hafi breyst.)
Steini: Menn hafa róast. Það er ekki eins mikið partístand á okkur. Við erum aðeins þroskaðri, vonandi.
Sölvi: Aðeins gáfaðri – frá því að vera svolítið mikið vitlausir yfir það að vera aðeins minna vitlausir.
Menn hafa róast. Það er ekki eins mikið partístand á okkur.
– Steini
Steini: Þegar við vorum að byrja þá var okkur, í alvörunni, skítsama um fokking allt og alla og við gerðum nákvæmlega það sem við vildum, hvenær sem við vildum, og það var enginn að fara segja okkur að það væri ekki hægt. Þá gáfum við bara viðkomandi puttann og fórum og gerðum það samt. Það var rosalegt „attitude“ í okkur og það var ekki einhver markaðssetning, heldur ríkti þetta andrúmsloft meðal meðlima hljómsveitarinnar. Í dag erum við orðnir eldri og frekar rólegir á því. Hins vegar finnst okkur gaman að vera með pung í tónlistinni, okkur finnst gaman að vera með pung upp á sviði, og okkur finnst gaman að vera smá „crazy.“ Það er alltaf stutt í það – en ég er ekki að fara rífast við einhvern gaur niðrí bæ og gefa honum fokk merki!
(Strákarnir hlæja.)
Sölvi: Sá kafli er búinn.
SKE: Ég renndi í gegnum slatta af gömlum viðtölum við ykkur í dag og djammið var alltaf í ákveðnum forgrunni … Hver var versti djammarinn af ykkur?
(Sölvi bendir á Steina.)
Steini: Ég var verstur.
SKE: Áttirðu þér einhvern „low point?“
Steini: Já, já. Ég átti alveg mínar lægðir. Það var samt ekkert „low point.“ Mér fannst það frekar „basic“ bara. En eftir á að hyggja, kannski – þó svo að ég hafi ekki gert neitt merkilegt af mér. Ég vaknaði bara í fangelsinu og var í einum skó. Ég var sem sagt nýbúinn að kaupa mér geggjaða Fila skó og var eiginlega mest svekktur yfir því að hafa týnt einum skónum. Svo var bankað á hurðina á fangaklefanum og þá var verið að sækja mig. Þá var það þessi gæi (Steini bendir á Sölva). Við fórum síðan beint í viðtal fyrir heimildarmyndina Popp í Reykjavík, þaðan í „soundcheck“ og svo vorum við að spila seinna um kvöldið. En þetta var stemningin á þessum tíma. Þetta var ekkert mál: Fangelsi, viðtal, „soundcheck,“ tónleikar og svo partí langt frameftir nóttinni.
SKE: Var þetta ekki erfið þynnka?
Steini: Nei, nei. Okkur fannst gaman að hafa gaman og mjög gaman að hafa mjög gaman. Þetta var eiginilega bara eitt stórt partí, fyrstu árin. Fyrsta platan og önnur platan, Eggið, þá spiluðum við líka gríðarlega mikið. Það fylgir því líka bara partí þegar þú ert tvítugur. Hvað ætlarðu að gera, þú ert rokkstjörna á pinkulitlu skeri – en samt lifir þú eins og þú sért alveg „the shit?“ Síðan fór að hægjast á þessu þegar menn fóru að átta sig á því að við þurftum að pæla aðeins dýpra í hlutunum.
SKE: Ég renndi einmitt í gegnum lagasafnið ykkar í dag og það var ýmislegt þarna sem maður var búinn að gleyma. En hefur ferlið sjálft breyst? Byrjar þetta ekki allt með tónlist frá Sölva?
Sölvi: Jú, það hefur lítið breyst. Við erum samt duglegir að sanka að okkur nýjum áhrifum. Auðvitað finnst mér gaman að tala um hvernig hlutirnir voru en yfirleitt þegar ég klára plötu eða lag þá hlusta ég ekki aftur á það – „Let’s move on!“
SKE: Hvað eruð þið að hlusta á í dag? Eitthvað úr nýja skólanum?
Sölvi: Ég er í öllu. Var einmitt að hlusta á nýju Schoolboy Q plötuna og hlusta mikið á nýtt Hip-Hop, sérstaklega undanfarið. Ég held að flestir séu með meira ‘90s blæti heldur en ég.
Ég er í öllu. Var einmitt að hlusta á nýju Schoolboy Q plötuna og hlusta mikið á nýtt Hip-Hop, sérstaklega undanfarið.
– Sölvi
Steini: Ég hef verið að hlusta á Run the Jewels og var einmitt að senda Sölva einhverja Ambient plötu.
SKE: Eiga hlustendur eftir að finna fyrir þessum áhrifum á væntanlegri EP plötu?
Sölvi: Nei, kannski ekki. Við erum, þrátt fyrir allt, með svolítið …
(Sölvi hugsar sig aðeins um og ég gríp orðið á lofti.)
SKE: Fastmótað „sound?“
Sölvi: Já.
Steini: Það breytist ekki.
Sölvi: Það er erfitt að fara út úr því og ég er ekki viss um að við viljum fara út úr því, þó svo að við viljum kannski taka smá dass héðan og þaðan. Þú heyrðir það í Chicago.
SKE: Gamli Quarashi hljómurinn.
Steini: En takturinn kannski aðeins elektrónískri en áður – smá dass af nýja skólanum.
SKE: Hlustendur virðast nokkuð sáttir með það, sérstaklega ef marka má athugasemdir á kommentakerfi Youtube: „Guð sé lof, Quarashi er ekki að eltast við einhverja nýja strauma,“ voru kannski viðbrögðin í hnotskurn.
Steini: Það væri líka bara skrítið ef Quarashi kæmi með eitthvað út úr Trap-að lag!
(Við hlæjum.)
SKE:
Ég var að lesa svo gott viðtal við þig, Sölvi, frá 2002. En þar lýsir þú
áhyggjum þínum yfir því að íslenska
tónlistarsenan hafi glatað sakleysi sínu fyrir kapítalismanum – en nú ert þú
hagfræðingur.
(Steini
byrjar að hlæja og Sölvi fylgir á eftir.)
SKE:
Hver er skoðun þín á þessu í dag?
Sölvi: Æj, æj, æj. Ég veit
það ekki. Hver var spurningin?
(Ég
spyr hvort að sýn hans á tónlist hafi breyst með markaðsfræðinni.)
Sölvi: Maður verður alltaf að
vera einlægur þegar maður er að gera tónlist. Eða hvaða list sem er. Ég held að
maður geti fundið á hvaða list sem er hvort það sé alvara í henni eða ekki.
Salvador Dalí var mjög markaðsþenkjandi listamaður – Picasso líka. Margir mjög
frægir myndlistarmenn: Ólafur Elíasson. Það sama á við David Bowie. Það að
markaðssetja sig þarf ekki að hafa neikvæð áhrif á mann sem listamann.
Salvador Dalí var mjög markaðsþenkjandi listamaður – Picasso líka. Margir mjög frægir myndlistarmenn: Ólafur Elíasson. Það sama á við David Bowie.
– Sölvi
Steini: Tónlist er svo sjónræn í dag. Ég er ekki að segja að það skipti öllu máli, en það skiptir máli hvernig heildarpakkinn lítur út og þá er markaðssetningin sem kemur þar inn.
Sölvi: Og markaðshliðin getur líka verið listform út af fyrir sig. Við höfum mikið notað það – að rugla aðeins með þetta.
SKE: Hvað markaðssetningu og „hype“ varðar þá hafa fáir gert þetta jafn vel og þið hérna heima. Það eru margir sem eru ágætis listamenn en kunna ekki að vekja athygli á sér.
Steini: Við höfum pælt mikið í því: Hvernig við getum „represent-að“ okkur út á við og hvernig við getum búið til meiri læti. Okkur finnst gaman að vera með læti. En okkur finnst líka bara gaman að fokka í fólki.
Sölvi: Að búa til sögur og það er alltaf þannig að það veit enginn nákvæmlega hvort að við séum að segja satt eða ekki.
SKE: Þegar tökumennirnir týndust um daginn fyrir útgáfuna af Chicago þá hugsaði ég um leið: „Bíddu, hvað er Sölvi að fokkast núna!?“
(Við hlæjum.)
SKE: Var það eitthvað?
Sölvi: Við bara týndum myndbandinu í einhverja viku.
Steini: Það er alveg satt.
Sölvi: En síðan vorum við kannski aðeins að spinna í kringum það. Þetta er popptónlist – Hip-Hop tónlist. Þetta er ekki pólitík, skilurðu? Við erum oft að gera eitthvað sem okkur finnst fyndið.
Steini: Á sínum tíma þegar við fórum í viðtöl hjá stórum tímaritum í Bandaríkjunum þá lugum alls konar kjaftæði að þeim. Við sögðum að feður okkar væru Íslandsmeistarar í dvergakasti og Ameríkanarnir tóku vel í það.
(Ég ímynda mér einbeittan Steina íklæddum þröngum spandex galla að sveifla dverg líkt og í sleggjukasti.)
SKE: Stafræni „Press-Kit-inn sem þið senduð frá ykkur var líka dásamlegur …
Steini: Kaninn trúði þessu öllu saman.
SKE: Kaninn getur verið svo grænn og var svo grænn á þessum tíma. Ætlaði Wu-Tang ekki að keyra til Íslands?
(Við hlæjum.)
Sölvi: Við nýttum okkur þetta mikið að vera frá svona exótísku landi.
SKE: Rappið er líka einstakt upp á hversu mikilvæg ímynd listamannsins er. Hún er hluti af stefnunni.
Sölvi: Ég man þegar ég hitti Steina og Hössa og sá þá saman og sá strax að það var eitthvað „star quality“ sem þeir höfðu. Alls staðar sem þeir fóru þá tók fólk eftir þeim. Þetta hjálpaði rosa mikið.
SKE: Svo er plata á leiðinni?
Sölvi: Jú, það er EP plata í vinnslu. Við erum komnir með tvö, þrjú lög. En það er ekkert staðfest.
Steini: Við erum ekki að gera þetta vegna þess að við eigum tuttugu ára afmæli – sem við föttuðum reyndar eftir á – heldur vegna þess að við höfum áhuga á þessu.
Sölvi: Það eru bara einir tónleikar skipulagðir og það getur vel verið að þeir verða síðustu tónleikar Quarashi. Við ætlum bara að rústa NASA!
Það eru bara einir tónleikar skipulagðir og það getur vel verið að þeir verða síðustu tónleikar Quarashi. Við ætlum bara að rústa NASA!
– Sölvi
SKE: Mig langaði svo að forvitnast með eitt: Þið voruð komnir svo rosalega langt í þessum bransa um það leiti sem Jinx kom út. Ég bjó úti í Bandaríkjunum og ég man að Stick ‘Em Up var í stöðugri spilun á öllum útvarpsstöðum. Svo misstuð þið flugið og urðuð þreyttir bara …
Sölvi: Jú, við keyrðum bara yfir okkur.
SKE: Sjáið þið eftir því í dag að hafa ekki þraukað og gefið út aðra plötu?
Sölvi: Nei.
Steini: Í rauninni ekki, því að við hefðum ekki getað haldið áfram. Það var ekki grundvöllur fyrir því. Við horfum ekki til baka og hugsum: „Það var svo æðislegt á þessum tíma að við höfðum átt að halda áfram.“ Menn voru bara búnir á því. Við vorum búnir að spila rosalega mikið.
Sölvi: Ég er bara ánægður með að maður hefði fengið að prufa þetta og hafa dregið sig í hlé áður en maður fór að gera þetta að einhverju ævistarfi.
Steini: Ég hefði dáið á einhverju tónleikaferðalagi. Pottþétt.
(Steini hlær.)
Sölvi: En við fengum að upplifa ótrúlega skemmtilegt tímabil.
Steini: Eftir á að hyggja þá er magnað að hafa fengið þetta tækifæri að upplifa þetta í lífinu – að spila á stórum túrum með stórum nöfnum …
Sölvi: Þetta var svolítíð eins og furðulegur hlutverkaleikur.
(Steini hlær sínum smitandi hlátri.)
SKE:
GKR og Shades of Reykjavík hita upp – af hverju þeir? Voru einhverjir aðrir sem
komu til greina?
Steini: Nei, GKR finnst okkur
mjög flottur. Hann minnir helst á einhvern Indie tónlistarmann, Beck eða
eitthvað, þó svo að hann sé rappari. Hann er að gera skemmtileg tónlist. Svo
minna Shades of Reykjavík svolítið á okkur þegar við vorum að byrja. Þetta eru
allt „skate-erar“ og þeir eru að gera þetta frá hjartanu. Þess vegna lá beinast
við að fá þá.
Sölvi: Klárlega, sko.
SKE:
Líka gaman að þið séuð að peppa yngri kynslóðina. Það er ein spurning sem maður
reynir alltaf að spyrja í viðtölum: Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér. Steini,
byrjum á þér?
(Steini
hugsar sig um.)
Steini: Ég er rólegur gæji
sem fylgi hjartanu í einu og öllu. Geri ekkert nema að mér finnst gaman að því.
Ef mér finnst það leiðinlegt þá sleppi ég því. Þannig hefur það alltaf verið.
Sölvi: Ég er bara nettur,
sko. Ég er mjög nettur gaur.
(Steini
hlær.)
SKE: Hvernig myndið þið lýsa Ómari?
Steini: Ég get alveg lýst Ómari: Það rennur ekki blóð í þessum manni. Þú ert heppinn ef þú færð „five“ frá honum – en hann er algjör snillingur. Hann er algjör nörd líka, veit allt um Godzilla og einhverjar japanskar Manga myndir sem enginn horfir á. Svo er hann líka tölvuleikjanörd og allt þetta, sem er algjör snilld því að textarnir hans eru aðallega um þetta. Hann er bara „solid“ gæji og hrikalega listrænn. Tjillaðasti gaur sem ég hef kynnst á ævinni.
(Þeir hlæja.)
Steini: Og ég hef hangið með mörgum freðhausum – og hann reykir ekki einu sinni!
SKE: En Hössi?
Steini: Hössi er náttúrulega hámenntaður heimspekingur. Mjög klár. Virkilega gáfaður strákur. En hann er líka rólyndisgæi og spáir og spekúlerar mikið í hlutunum. Hann les rosa mikið. Hössi var alltaf með bók við hönd á öllum tónleikaferðalögum. Hann les og les og les allan daginn. En hann er líka ótrúlega skemmtilegur og með góðan húmor.
SKE: Trylltur á djamminu?
Steini: Ég meina, honum finnst ekkert leiðinlegt að fá sér.
(Við hlæjum.)
Steini: En Hössi er ekki trylltur. Það sést eiginlega aldrei á honum. Sama hvað hann er búinn að fá sér marga bjóra.
SKE: Sókrates, gríski heimspekingurinn, hann var einmitt þekktur fyrir þetta. Hann gat drukkið og drukkið og það sást aldrei á honum. Þetta er viskan – viskan drepur ölvunina.
(Meiri hlátur.)
Steini: Hössi er þannig.
SKE: En Tiny?
Steini: Tiny er rokkstjarnan í hópnum. Tiny er náttúrulega ör – en á góðan hátt. Hann er fljótur að svara og segir nákvæmlega það sem hann vill hvenær sem hann vill. Tiny er góður gæi og er líka mjög klár, listrænn og frábær textasmiður.
SKE:
Verður Óli eitthvað með ykkur?
(Ólafur
Páll Torfason, betur þekktur sem Opee, spilaði stóra rullu í laginu Mess It
Up.)
Sölvi: Óli verður með.
Steini: Óli er líka
toppnáungi.
Sölvi: Eðal náungi.
Steini: Hann tekur alltaf
lagið með okkur.
Sölvi: Gull af manni.
SKE:
Ég elska Óla.
Sölvi: Hver elskar ekki Óla?
(Við
hlæjum.)
Steini: Það er gott að knúsa
Óla.
SKE:
Hann er mjög hlýr.
Steini: Svo er líka Gísli
Galdur. Hann er altlaf með okkur. Hann er líka gull af manni.
Sölvi: Krúttsprengja.
Steini: Og maður getur alltaf
stólað á Galdur.
Sölvi: Hann er með góða orku.
Steini: Og það smitar út frá
sér.
SKE:
Þetta er fallegur hópur …
(Samtalið
fjarar út í einhverja sýru. SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á
tónleika Quarashi föstudaginn 12. ágúst á NASA. Það eru örfáir miðar eftir.)