Ólafur Páll Torfason (Opee) ræðir Alda Music, íslenskt rapp o.fl.
Nýverið gerði íslenska útgáfufyrirtækið Alda Music samning við bandarísku Hip Hop útgáfuna 300 Entertainment en fyrir þá sem ekki þekkja til 300 Entertainment þá var fyrirtækið stofnað árið 2012 af hinum goðsagnakennda Lyor Cohen (oftast kenndur við Def Jam). Í dag annast 300 Entertainment útgáfu fyrir listamenn á borð við Migos, Young Thug, Fetty Wap, o.fl. og líkt og fram kom í hérlendum fjölmiðlum þá felst samstarf útgáfanna í því að Alda Music verður sérstakur samstarfsaðili 300 Entertainment á Íslandi en 300 Entertainment hyggst færa út kvíarnar til Norðurlandanna. Verður þetta að teljast ákveðið sóknartækifæri fyrir íslenska rappara. Í tilefni fyrrnefnds samnings spjallaði SKE stuttlega við Ólaf Pál Torfason, einnig þekktur sem Opee, og spurði hann nánar út í málið.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Ólafur Páll Torfason
SKE: Sæll, Óli – hvað er að frétta?
Ólafur Páll Torfason: Það er gott að frétta. Fullt af skemmtilegum verkefnum í gangi og gaman að vera til.
Hvert er þitt hlutverk hjá Alda Music?
Ég er titlaður framkvæmdastjóri hjá Alda Music og ber ábyrgð á rekstrinum. En við trúum ekki mikið á hírarkíu og erum þétt teymi þar sem allir eru með sín verkefni og keyra áfram og vinnum í því að finna veg fyrir okkar listamenn.
Hefur hlutverk útgáfufyrirtækja á borð við Alda Music breyst mikið síðastliðin ár?
Já, útgáfubransinn er búinn að breytast gífurlega á síðustu árum og í raun þurfum við að endurskilgreina hlutverk tónlistarútgáfu frá A-Ö sem er spennandi. Við í raun lítum á okkur sem „start up” fyrirtæki, breytingarnar eru það miklar. Hins vegar byggjum við á traustum grunni og erum með mikla reynslu innanborðs sem gerir okkur kleyft að færa útgáfuna til nútímans. Við erum einnig stærsta útgáfan á Íslandi.
(Lagið „For the Record“ með Opee og Tiny er sígilt.)
Sem hinn helmingur O.N.E. gafstu út fjölmörg lög ásamt
því að hafa gefið út með Quarashi. Sem einn af okkar uppáhalds íslensku röppurum hvetjum við þig til að byrja að rappa á ný – en ef svo færi hvaða tvo taktsmiði myndirðu vilija vinna með?
Ef ég þyrfti að velja – einhverja sem ég hef ekki unnið með áður – þá er Helgi í Úlf Úlf einn minn uppáhalds og hefur verið í mörg ár. Síðan væri ég líka mjög spenntur að sjá hvernig það myndi blandast við tónlistina hans Marteins.
(Lagið „Bróðir“ eftir Úlf Úlf og „Bing“ eftir Martein.)
Alda Music er með einn rappara og eina rappsveit á sínum snærum: Ella Grill og Úlf Úlf. Stendur til að veita fleiri röppurum útgáfusamning?
Já, við erum í viðræðum við ýmsa og viljum hafa sem flesta með okkur. Við erum samt alls ekki útgáfa sem einblínir á rapp en þar sem það er svo margt spennandi í gangi og þar sem við höfum margir bakgrunn úr rappi þá erum við fljótir að tengja við það – en tónlist er tónlist og fjölbreytni er góð.
(Elli Grill í essinu sínu í Kronik.)
Hvað finnst þér um íslenskt Hip Hop í dag? Er bólan að fara springa?
Mér finnst frábært hvað það er margt í gangi og hverning hlutirnir hafa þróast. Þegar ég var í þessu var þetta ekki viðurkennt listform og fullt af fordómum í gangi. En fjölbreytnin og allir þessir stílar sem eru í gangi hafa tekið þetta skrefinu lengra. Auðvitað koma sveiflur en rapp er engin bóla, löngu búið að sanna sig að það er komið til að vera.
Ef þú gætir breytt einhverju við senuna, hverju myndirðu breyta?
Mig langar að sjá íslenska rappara í alþjóðlegu samstarfi og það er eitthvað sem við erum að vinna að og vonandi tekst.
Hvað ertu að hlusta á þessa dagana?
JóiPé og Króli duttu mjög óvænt á fóninn en það er svo margt í gangi. Platan sem ég hef hlustað oftast á árinu er Úlfur Úlfur Hefnið okkar og hún er að mínu mati ein þéttasta plata sem hefur komið út.
(JóiPé og Króli rappa yfir bít frá Dr. Dre í Kronik.)
Nýverið gerði Alda Music samkomulag við 300 Entertainment. Samkomulagið felur í sér „að listamenn undir merkjum Alda Music fá aðgang að víðfeðmu tengslaneti 300 Entertainment auk aðgangs að nýjum mörkuðum bæði fyrir útgáfur og til hljómleikahalds.“ Er þetta ástæðan fyrir tónleikaferðalagi Úlfs Úlfs í austur-Evrópu?
Austur-Evrópu túr Úlfsins var kominn á kortið áður en 300 var formgert en Úlfurinn er klárlega inni í myndinni fyrir 300.
Hvað er Alda Dreifing?
Alda Dreifing er stafræn dreifingaveita sem heitir á ensku „aggregator.” Beinir samningar okkar við Spotify tryggja hærri greiðslur til listamanna fyrir innlenda spilun. Þessar greiðslur munu bara halda áfram að hækka þar sem við merkjum mikla aukningu á Spotify áskriftum hér á landi. Við erum í nánu samstarfi við Spotify og reglulega eru listamenn okkar og þeir sem eru í dreifingu að komast inn á „playlist-a,” bæði innanlands og utan. Við viljum fá sem flesta hingað inn og taka þátt í uppbyggingunni, enda sjáum við þetta sem mikið tækifæri fyrir alla íslenska tónlist.
Við erum að hefjast handa við að kynna þessa þjónustu þessar vikurnar þar sem við höfum séð að margir tónlistarmenn hér á landi vita ekki að þessi þjónusta er í boði. Erlendar dreifiveitur eru því í mikilli notkun hérlendis og þar eru fjármunir að tapast út úr íslensku tónlistarlífi, auk þess sem við erum sannfærðir um að við getum veitt mun betri og persónulegri þjónustu.
(SKE þakkar Ólafi kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að fylgjast nánar með Alda Music í framtíðinni. Einnig mælum við með gervöllum katalógi O.N.E.)