Auglýsing

„Reyni að stóla sem minnst á aðra.“—SKE ræðir við Dag Snæ og Sareyju

Viðtöl

SKE: Á þessum degi (4. janúar), fyrir 100 árum síðan, óskaði ritstjórn tímaritsins Fram lesendum gleðilegs nýs árs, og reifaði, í kjölfarið, allt það sem hæst bar á árinu sem leið: Veturinn var sá frostharðasti í manna minnum; vopnahléssamningur var undirritaður í einni blóðugustu styrjöld sögunnar; spánska veikin dró fjölmarga landsmenn til dauða; og hið mikla gos eldfjallsins Kötlu bakaði mikið tjón. Ritstjórn SKE, sem einblínir aðallega á hérlenda tónlist og menningu (en leyfir sér þó, endrum og eins, að rýna í heimsmálin) tók einnig saman það sem stóð upp úr á síðasta ári, en þá í samhengi íslenskrar og erlendrar tónlistar. Eitt af því sem ritstjórnin láðist að nefna var það hversu margir íslenskir nýliðar stigu fram árið 2018; við höfum löngum haft það sem prinsipp að gera upprennandi tónlistarfólki hátt undir höfði. Í tengslum við þessa hugsjón heyrðum við nýverið í þeim Degi Snæ Elíssyni og Sigurrósu Areyju Árnýjardóttur. Þau gáfu nýverið út lagið „Ís og eldur“ og stefna á frekari útgáfu í framtíðinni. Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH
Viðmælendur: Dagur Snær Elísson / Sigurrós Arey Árnýjardóttir

SKE: Já, góðan daginn—og gleðilegt árið. Strengduð þið nýársheit um áramótin?

Dagur Snær: Ég ætla mér að gefa út mikið af efni í samstarfi við fjölbreyttan hóp listafólks og vonandi að maður nái því takmarki að notendur Spotify spili lag eftir mig 100.000 sinnum. Það væri toppurinn! Það er svona það helsta.

Sarey: Markmiðið mitt árið 2019 er að gefa út meiri tónlist og standa meira með sjálfri mér.

SKE: Sjáið þið eftir einhverju, hvað síðasta ár varðar?

Dagur Snær: Nei, ég myndi ekki segja það.

Sarey: Nei, eins og allir geri ég fullt af mistökum en ég reyni bara að læra af þeim.

SKE: Hver eruð þiðog hver eruð þið ekki?

Dagur Snær: Dagur Snær Elísson (D.S.E) er taktsmiður og tónlistarmaður frá Selfossi sem hefur verið að brasa ýmislegt sem tengist tónlist. Ég hef pródúserað fjöldan allan af lögum fyrir listafólk, auglýsingar, stuttmyndir o.fl. Ég er uppalinn og bý á Selfossi og hef verið að pródúsera í tæp þrjú ár. Ég er ekki atvinnulínudansari.

Sarey: Sigurrós Arey er tónlistarnörd en ekki díva—þó svo að það væri nú fínt ef fólk myndi stundum stjana við mig.

SKE: Þið gáfuð út lagið Ís og eldur fyrir skömmu. Notendur Spotify hafa hlýtt á lagið 
rúmlega 10.000 sinnum. Hvernig kom lagið og samstarfið til?

Dagur Snær: Ég byrjaði á að búa til drop-ið og finnst það alveg sjúklega epic. Skömmu síðar kíkti Sigurrós Arey til mín í hljóðverið (þess má geta að við erum frændsystkin). Ég heyrði það strax að hún yrði fullkomin í lagið og hófst þá textasmíð hjá henni og vini hennar. Mig hefur alltaf langað til að gefa út lög undir eigin nafni, þ.e.a.s. undir listamannsnafninu mínu, og er mun fleiri lög væntanleg undir þeirr yfirskrift árið 2019. Þetta verða mest megnis partílög, drop og þess háttar.

Sarey: Ég var svo heppin að fá að syngja lítinn bút úr lagi sem ég samdi síðasta sumar hjá honum í hljóðverinu. Við Dagur smullum saman og ákváðum í kjölfarið að vinna saman. Ég og Hákon vinur minn vorum í bíltúr kvöldið sem ég fékk nokkur demó frá Degi send og við féllum strax fyrir taktinum—sem varð svo að Ís og eldi. Hákon er mikill áhugamaður um íslenska tungu og er hann snillingur í því að raða saman orðum. Dagur vildi endilega fá að heyra hvað væri komið þannig ég söng þetta í símann á meðan Hákon keyrði; í hvert sinn sem beygja var tekin, eða farið var yfir hraðahindrun, heyrist það í þessari fyrstu upptöku.

SKE: Dagur, hvaða tæki og tól nýtirðu þér í taktsmíðinni?

Dagur Snær: Ég er með aðstöðu í bílskúrnum sem við pabbi komum upp. Ég vinn lögin í Ableton en go-to plugin-in hjá mér eru Serum, Omnisphere, Kontakt og Battery þegar það kemur að taktsmíðinni.

SKE: Það er gjarnan ákveðin togstreita milli kynslóða, sérstaklega hvað rapptónlistina varðar; hlustarðu eitthvað á gamla skólann svokallaða? Ef svo er, hvaða rapparar eða taktsmiðir eru í uppáhaldi?

Dagur Snær: Ég verð að viðurkenna að ég hlusta ekki mikið á gamla skólann. Ég er hins vegar mikið á tánum þegar það kemur að því að uppgötva eitthvað nýtt. Ég fylgist vel með nýrri tónlist, sérstaklega þeirri tónlist sem kemur út hér á landi. Hvað taktsmíð varðar þá fíla ég lög sem koma frá Kanye, Snakehips, Russ, David Guetta og svo finnst mér Calvin Harris alltaf koma skemmtilega á óvart. 

Sarey: Ég hlusta mjög mikið á eldri tónlist en hef því miður ekki kynnt mér eldri rapptónlist nógu vel.

SKE: Hvað hefur tónlistin kennt ykkur um lífið?

Dagur Snær: Hún hefur kennt mér að vera skapandi. Þá hefur hún einnig þann eiginleika að geta vakið upp alls konar tilfinningar: gleði, tilhlökkun, sorg og reiði. Ef ekki væri fyrir tónlist þá myndu lífsgæði mín minnka til muna.

Sarey: Tónlist er leið fyrir mig að tjá mig. Hún gerði mig að manneskjunni sem ég er í dag. Ég er alltaf syngjandi—hvar sem ég er stödd, hvort sem það er í Kringlunni, í matvörubúðinni eða í skólanum. Vinum mínum finnst það svolítið pínlegt þar sem fólk fer stundum að gjóa augunum til okkar.

SKE: Dagur, í nýlegri könnun á vegum Facebook-hópsins Nýs íslensks Hiphops var platan Matador eftir Birnir valin besta íslenska Hip Hop breiðskífan. Ertu sammála því?

Dagur Snær: Ég tengdi persónulega betur við plöturnar Hetjan úr hverfinu með Herra Hnetusmjör og Eini strákur með Hugin, en það er bara ég. Það var þó eitt lag af Matador plötunni sem ég tengdi við og það var Út í geim.

SKE: Eitt lag sem allir verða heyra—og hvers vegna?

Dagur Snær: Like I Do eftir David Guetta, Martin Garrix og fl. Ég tengi mikið við EDM og House senuna þessa dagana. Þetta lag er bara bilað gott! 

Sarey: Mér finnst að allir ættu að hlusta á lagið Karlmennskan eftir Daníel Dag. Þetta er mjög góður boðskapur sem allir ættu að taka til sín.

SKE: Dagur, uppáhalds tilvitnun (eða lagatexti, rapplína)?

Dagur Snær:  

No one taught me, I was like damn /
Fuck it, I’ll do it myself /
No one puttin’ me on, damn /
Fuck it, I’ll do it myself / 
— Russ 

Ég tengi sterkt við þennan texta. Ég veit ekki hversu margir—og maður sjálfur þar með talinn—hafa reitt sig á aðra sem hefur oftar en ekki endað í svekkelsi. Þannig ég lifi svolítið þannig að ég reyni að stóla sem minnst á aðra og geri mest allt sjálfur. Ef það er eitthvað sem ég get ekki þá fræðist ég um það—og næ því á endanum.

SKE: Hvernig lítur árið 2019 út fyrir þig, Dagur?

Dagur Snær: Mjög vel. Ég er með mjög mikið af góðum lögum, sem voru unnin í samstarfi við flott listafólk, sem munu líta dagsins ljós árið 2019.

SKE: Eitthvað að lokum?

Dagur Snær: Ég vil bara þakka góðar undirtektir á laginu og ítreka að það er mikið nýtt efni á leiðinni!

(SKE þakkar Degi Snæ og Sarey kærlega fyrir spjallið. Áhugasamir geta fylgst með þessu upprennandi tónlistarfólki á Spotify. Hér fyrir neðan er svo hlekkur á ofangreinda grein í tímaritinu Fram.)

Nánar: https://timarit.is/view_page_i…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing