Sýrland Sessions
Í sumar fengu SKE og Stúdíó Sýrland fjórar söngkonur til liðs við sig. Hver söngkona samdi eitt lag sem var síðar hljóðritað í hljóðveri Sýrlands en úr varð svo myndbandsserían Sýrland Sessions þar sem sköpunarferlið var rætt og upptaka hvers lags fest á filmu.
Í öðrum þætti seríunnar flytur söngkonan Saga Nazari lagið Blekkingin sem taktsmiðurinn Dreyminn pródúseraði en útkoman er afar vel heppnuð (sjá hér að ofan). Myndbrotin sem birtast í þættinum eru frá myndbandinu við lagið Don’t Gotta Be Real sem Ríkey Konráðsdóttir leikstýrði.
Þá ræðir Saga Nazari einnig sköpunarferlið, tónlistina og fortíðina. Líkt og fram kemur í viðtalinu er bakgrunnur Sögu ekki sá einfaldasti:
„Ég er 19 ára gömul. Ég fæddist í Noregi og er uppalin hér á Íslandi—en öll föðurættin kom frá Kúrdistan. Svo er ég líka danskur ríkisborgari; þetta er kannski ekki einfaldlegasta sagan.“
– Saga Nazari
Að lokum má þess geta að Saga stefnir að því að gefa út mixteip á næstunni. Áhugasamir geta hlýtt á meira efni frá Sögu Nazari á SoundCloud og á Youtube.