Hallelujah
Flestir lesendur kannast við lagið Hallelujah. Lagið hefur komið fyrir í fjölda kvikmynda (Shrek og Watchmen til dæmis) og virðist njóta mikilla vinsælda á meðal þeirra sem taka þátt í söngvakeppnum.
En þó svo að lagið sjálft sé þekkt þá eru eflaust fáir kunnugir þeirri merku sögu sem liggur að baki laginu.
Í sjöunda þætti hlaðvarpsins Revisionist History, sem rithöfundurinn Malcolm Gladwell stýrir, gerir hann þeirri sögu góð skil.
(Þáttinn má hlusta á hér fyrir neðan:)
Aðdragandi sögunnar er kenning um sköpunarferlið sem hagfræðingurinn David Galenson þróaði, en kenningin grundvallast á hugmyndinni um tvær tegundir listamanna: listamenn sem hafa skýr markmið og toppa snemma („conceptual innovators“) annars vegar, og þá sem leggja út í óvissuna án skýrra markmiða og toppa seint hins vegar („experimental innovators“).
Fyrirmynd fyrri hópsins, að mati Galeson, er Picasso sem var snillingur í orðsins fyllstu merkingu, skapaði hratt og ávallt samkvæmt skýrri stefnu. Picasso umbylti listheiminum þegar hann var rétt um tvítugt.
Fyrirmynd síðari hópsins er listmálarinn Cézanne en hann toppaði seint og endurskapaði mörg frægustu verk sín ótal sinnum áður en hann var ánægður með útkomuna (hann bað listunnandann Ambroise Vollard um að sitja fyrir 100 sinnum áður en hann kláraði portrett mynd af honum).
Leonard Cohen
Gladwell segir frá frægu samtali Leonard Cohen og Bob Dylan á kaffihúsi í París á níunda áratugnum. Er þeir sötra kaffi segir Dylan við Cohen: „Ég er mjög hrifinn af Hallelujah,“ og spyr síðan hvað hann var lengi að semja lagið. Cohen svarar til baka „tvö ár,“ og lýsir svo yfir eigin aðdáun á laginu I and I: „Hvað varstu lengi að semja lagið?“ spyr Cohen. „15 mínútur,“ svarar Dylan.
Dylan er Picasso, Cohen er Cézanne, segir Gladwell.
Í raun var Leonard Cohen fimm ár að glíma við lagið og gafst hann að lokum upp. Fyrsta útgáfa Hallelujah er að finna á plötunni Various Positions sem átti upprunalega að koma út hjá plötufyrirtækinu CBS Records. Hins vegar neitaði Walter Yetnikoff, yfirmaður hjá CBS Records (sem gaf út plöturnar Thriller með Michael Jackson og Born in the USA með Bruce Springsteen), að gefa plötuna út vegna þess að honum fannst hún ekki vera nógu góð.
Leonard Cohen fór því með plötuna til Passport Records sem gaf hana út árið 1984. Platan var vonbrigði – og lagið Hallelujah vakti litla sem enga eftirtekt. Eftir útgáfu plötunnar hélt Cohen áfram að vinna í laginu og breytti því reglulega á milli tónleika. Lagið varð enn drungalegra er árin liðu, segir Gladwell.
(Hér fyrir neðan er fyrsta útgáfa lagsins:)
John Cale
Nokkuð eftir útgáfu plötunnar Various Positions kom Leonard Cohen fram í Beacon Ballroom í New York. Meðal áhorfenda var fyrrum meðlimur Velvet Underground John Cale. John Cale var svo hugfanginn að laginu að hann hafði samband við Cohen eftir tónleikana og lýsti yfir áhuga sínum að gera ábreiðu af laginu. Cohen faxaði honum 15 blaðsíður sem innihéldu mismunandi útgáfur af textanum og óskaði honum góðs gengis; lagið hafði yfirbugað hann.
John Cale notaði fyrstu tvö erindin úr upprunalega laginu í bland við þrjú önnur erindi sem Cohen hafði flutt á tónleikunum í Beacon Ballroom. Cale breytti þema lagsins og bætti inn nokkrum tilvísunum í Biblíuna sem Cohen hafði hætt við að nota. Þessi útgáfa Hallelujah eftir John Cale kom út á plötu sem franska tónlistartímaritið Les Inrockuptibles gaf út árið 1991. Platan ber titilinn I’m Your Fan og er hún jú tileinkuð kanadíska söngvaskáldinu Leonard Cohen. Platan vakti litla lukku.
(Hér fyrir neðan er útgáfa John Cale):
Jeff Buckley
Ein af þeim fáu sem keyptu plötuna var kona að nafni Janine. Svo vildi til að Janine var vinkona manns að nafni Jeff Buckley sem gætti íbúð Janine þegar hún var í burtu. Einn daginn rótaði Buckley í plötusafni Janine og rambaði á plötuna I’m Your Fan. Hann hlustaði dolfallinn á ábreiðu John Cale af laginu Hallelujah og ákvað í kjölfarið að semja eigin útgáfu af laginu sem hann svo gerði. Þessa ábreiðu flutti Buckley síðar á litlum næturklúbbi í East Village í New York. Flutningur hans á laginu varð til þess að hann fékk plötusamning hjá Columbia Records.
Lagið Hallelujah í flutningi Jeff Buckley rataði inn á fyrstu plötu söngvarans Grace sem kom út árið 1994. Helsti munurinn á lagi Cale og Buckley er sá að Buckley skipti út píanóinu fyrir gítar og söng, að sjálfsögðu, lagið sjálfur. Rödd Buckley er ótrúleg.
En ábreiða Buckley, sem flestir þekkja í dag, sló ekki í gegn við útgáfu plötunnar Grace (platan komst ekki ofarleag á vinsældalista í Bandaríkjunum). Það var ekki fyrr en árið 1997 þegar Jeff Buckley drukknaði á hápunkti ferilsins er hann synti kvöldsund í Memphis, Tennessee, sem lagið fór á flug. Dauði Buckley endurvakti áhuga hlustenda á laginu og síðan þá hefur lagið orðið eitt af frægustu lögum heims.
Segja má að flestar útgáfur lagsins sem hljóma í dag séu í raun ábreiða af lagi Buckley sem var ábreiða af lagi Cale sem var ábreiða af lagi Cohen.
(Hér er útgáfa Buckley:)
Síðan þá hafa fjölmargir listamenn flutt lagið,
Meðal þeirra sem hafa flutt lagið er Bob Dylan, Jon Bon Jovi, U2 og Rufus Wainwright.