Í dagbókum Friedrich Nietzsche er að finna eftirfarandi tilvitnun: „Ef allt súrefni jarðarinnar yrði sogað burt, fyrirvaralaust, er ég sannfærður um að ég myndi fyrst! harma þöggun tónlistarinnar, áður en ég myndi syrgja eigin yfirvofandi köfnun og óhjákvæmilegan dauða.“ Við hjá SKE erum innilega sammála þessari athugun þýska heimspekisins og gerum okkar besta til þess að fagna íslenskri tónlist við hvert tækifæri. Nú á dögunum heyrðum við í September, en hljómsveitin sendi frá sér lagið Hold My Hand ásamt söngkonunni Maríu Ólafs í lok júní.
Halló hér, September. Hvað er að frétta?
Íslensku fótboltalandsliðin bæði karla og kvenna eru það sem er að frétta í dag!
Þið gáfuð út lagið Hold My Hand ásamt söngkonunni Maríu Ólafs fyrir stuttu. Hvernig kom þetta samstarf til?
Við höfðum lengi rætt að okkur langaði að fá Maríu í einhvað samstarf, löngu áður en Hold My Hand varð hugmynd. Síðan kom þetta lag til og við vorum allir sammála um að reyna að fá Maríu í það, og við sjáum ekki eftir því. Það var frábært að vinna með henni, virkilega góð söngkona og síðan æðisleg manneskja í þokkabót.
Hvað getið þið sagt okkur um hljómsveitina – meðlimir, aldur, bakgrunnur, o.s.frv.?
Við erum þrír í teyminu. Andri Þór Jónsson (20), Birgir Steinn Stefánsson (23) og Eyþór Úlfar Þórisson (22). Við erum allir Kópavogsmenn og stoltir af því.
Þegar kemur að lögunum sjálfum þá semjum við allir lögin og textana saman og við útsetjum og próduserum í sameiningu. Síðan er það Eyþór sem sér um tölvuvinnuna og síðan hljóðblöndunina að lokum.
Hvað er September að hlusta á þessa dagana – og hvað er September ekki að hlusta á?
Við erum allir að hlusta á rosalega mikið af tónlist á hverjum degi. Við fýlum allir mjög mikið af því sama en við erum líka allir með okkar eigin uppáhalds tónlist sem er frábrugðin hinum. Sem hópur þá hlustum við aðallega á það helsta í popptónlistinni í dag. Við erum alltaf að fá innblástur frá hinu og þessu sem er að gerast í poppinu á hverjum degi.
Hingað til hafið þið fengið þrjár söngkonur til liðs við ykkur, þær Stefaníu Svavars, Maríu Ólafs og Sylviu. Ef þið gætuð fengið hvaða íslenska karlsöngvara til þess að syngja með ykkur – hver yrði fyrir valinu?
Það eru eflaust margir. Ég hugsa að Justin Bieber eða Páll Óskar sé draumurinn. Helst Páll Óskar samt.
Af hverju September?
Þegar September hóf störf árið 2014 þá voru það aðeins Eyþór og Birgir sem skipuðu sveitina. Þeir eiga báðir afmæli í September, sem er ástæðan fyrir nafninu. Það er því miður ekki skemmtilegri ástæða nafninu en það, við þyrftum kannski að fara að vinna í betri sögu til að segja fólki sem spurja.
Andri Þór gekk síðan í teymið aðeins síðar og hann á afmæli í Nóvember, hinir meðlimir voru brjálaðir þegar þeir komust að því.
Teljið þið að tónlist sé skotspónn hugans?
Við vitum því miður ekki hvað það þýðir. Samt eru tveir af okkur stúdentar úr MK.
Á skalanum rotinn hákarl til eldbökuð pizza hversu ánægðir eru þið með nýja forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannesson?
Steiktur kjúklingur, ef það er einhverstaðar á þessum skala.
Uppáhalds tilvitnun / „one liner“?
„Gefðu allt sem þú átt“ -JJ
Hér eru svo nokkur lög eftir hljómsveitina September.
… ásamt sígilt viðtal við DJ Ívar
Orð: Friðrik Níelsson