Viðtal
Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Júníus Meyvant
SKE: Guð blessi mállausa, sem lifa lífinu í hljóðlátu tilgangsleysi, sem framkvæma til þess eins að framkvæma – því segðu mér: Er ekki eini tilgangur mannlegrar reynslu að geta talað um hana eftir á? Er ekki aðeins ein ástæða fyrir því að maðurinn geri nokkurn skapaðan hlut – sumsé – svo að hann geti rætt um fyrrgreindan hlut eftir að hann gerist? Hreinskilningslega sagt þá hræðist ég ekki dauðann. Það er aðeins eitt sem veldur mér ónotum varðandi dauðann – sú staðreynd að ég mun ekki geta rætt hann við vini mína eftir að hann á sér stað … Er ég spjallaði við Júníus Meyvant í síðustu viku runnu þessi orð í gegnum huga minn. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Júníus Meyvant er lunkinn í samræðulistinni. Júníus Meyvant kann að tala, að bulla, að masa, að blaðra. Tilgangur samræðunnar voru væntanlegir útgáfutónleikar í Háskólabíó – en við ræddum aðallega eitthvað allt annað: Börn, Pétur Jesú, meðvirkni og fleira …
(Svolítið þreytulegur geng ég út úr skrifstofunni og niður stigann, mæti síðan Júníusi á bílastæðinu fyrir utan. Það er sól. Júníus gengur í fylgd tveggja barna og er klæddur eins og hippi úr framtíðinni.)
Júníus: Blessaður!
SKE: Blessaður!
(Ég lít í átt að börnunum.)
Júníus: Ég á nóg af börnum! Átt þú börn?
SKE: Nei.
Júníus: Ekki eignast börn. Fríið búið og lífið byrjað.
SKE: Túrar þú bara ekki eins mikið og þú getur?
Júníus: Jú, það er mín hvíld.
(Við göngum í gegnum undirgöng í átt að Laugaveginum. Börnin elta með loftkenndum skrefum. Við göngum og spjöllum á sama tíma líkt og við séum gestaleikarar í norrænum West Wing þætti.)
SKE: Hvernig gekk á Bryggjunni (Júníus hitaði upp fyrir Innipúkann á Bryggjunni Brugghús)?
Júníus: Bara mjög vel … bíddu, varstu ekki þar?
SKE: Jú, ég var bara orðinn svo fullur; var byrjaður að ráfa.
(Júníus horfir á mig fullur samúðar og skilnings. Við höldum áfram að ganga.)
Júníus: Bíddu, þarftu ekki að taka eitthvað upp? Manstu bara þetta allt saman?
SKE: Ég er með diktafón í vasanum.
Júníus: Ertu að Kompása mig!?
SKE: Já.
(Ég hlæ. „Júníus vissi ekki neitt!“ segir hann og hermir eftir dramatískri lýsingu úr Kompás. Við röltum inn á Te & Kaffi á Laugaveginum og sameinumst mannorminum, röðinni.)
SKE: Hvað má bjóða þér?
Júníus: Bara eitt af öllu. Nei, Chai Latte … nei, ég drekk ekki kaffi. Ég er svo barnalegur.
SKE: Ég las yfir „rider-inn“ þinn um daginn (listi yfir það sem tónlistarmenn vilja hafa baksviðs) – bara kókómjólk og saltlakkrís.
Júníus: Jú – og jógúrt og múslí handa bassaleikaranum.
SKE: Hvernig var á Hróaskeldu?
Júníus: Mjög gott bara, en ég er ekki mikill útihátíðarmaður.
SKE: Af hverju ekki?
Júníus: Það er bara þegar það er of mikið í boði þá verð ég svo órólegur. Þetta er eins og með bland í poka, þá hakka ég allt í mig á mettíma. Mig langar bara að þetta sé einfalt – svona eins og MAC tölvan. Þú getur ekki breytt neinu. Eins og Steve Jobs vildi hafa þetta: engin „option.“
SKE: Var þetta fyrsta skiptið þitt á Hróarskeldu?
Júníus: Já. Það er rosa mikið um það þessa dagana, þ.e.a.s. ég að gera hluti í fyrsta skiptið. Eins og ég hafði aldrei komið til London og spilað í Royal Albert Hall. En ég spilaði reyndar í frekar litlum sal.
SKE: En hann var fullur?
Júníus: Jú, jú.
SKE: Ég hefði ekki getað fyllt þennan sal … Ég var að lesa viðtalið sem ég tók við þig í fyrra. Það var gott „stuff.“
Júníus: Já, bíddu á Kaffivagninum?
SKE: Já.
Júníus: Owen Wilson var þarna um daginn … Owen Wilson – það er eins og að hann sé með gamalt stígvél á nefinu. En hann er fallegur. Sjarmur!
SKE: Svo var hann bara í fótbolta á Laugaveginum.
Júníus: Þú og Owen eruð alveg eins.
(Ég reyni að taka þessu sem hrósi og strýk á mér nefið. Það er komið að okkur í röðinni. Júníus grípur Malt úr kælinum.)
Erlend afgreiðslukona: Hi, what can I get you?
SKE: A cappuccino for me.
Erlend afgreiðslukona: Excuse me?
SKE: A CAPP-U-CCINO.
Erlend afgreiðslukona: Soooo, are you going to pay together?
SKE: Yes … We are together. We’re here for Gay Pride.
Júníus: Yes.
(Afgreiðslukonan hlær.)
Júníus: You’re laughing at us! We are a great couple!
Erlend afgreiðslukona: Congratulations!
SKE: Thank you.
Erlend afgreiðslukona: Should I open this for you or you can open it with your teeth maybe?
Júníus: Yes, or my eye pockets. Sockets!
(Ég hlæ.)
Erlend afgreiðslukona: And a name for the cappuccino?
SKE: Ragnar … Raggi … Reggie – Reggie Miller.
Júníus: Ég var einmitt að horfa á Reggie Miller í gær. Skjóta þrist.
(Við bregðum okkur út og fáum okkur sæti. Júníus kvartar yfir skugganum. Júníus kastar þeirri kenningu fram að hápunktur íslenska sumarsins eigi sér stað rétt fyrir verslunarmannahelgina, en síðan fellur sá hápunktur óðfluga þar á eftir. Ég spyr hvernig honum hafi gengið á Þjóðhátíð.)
Júníus: Það var gaman. Þetta er náttúrulega bara sveitaball. Ég er með þannig tónlist að ég syng á ensku og reyni að vera einhver hipster. En þetta eru Jón Jónsson og bróðir hans Friðrik, Land og synir, Lífið er yndislegt, Skál fyrir þér – þú getur rétt ímyndað þér hvernig stemningin var þegar Friðrik tók Skál fyrir þér … Ég sagðist ætla taka Skál fyrir þér í djóki og það bara: „Ahhhhh!“ (Júníus hermir eftir yfirpeppuðum almúganum.) Svo sagði ég djók og þá bara: „Uuuugggh“ (Nú vonsvikinn almúginn.)
SKE: Skynja ég eitthvað „jealousy?“
Júníus: Nei, ég þekki minn stað. Ég er náttúrulega Eyjamaður og Eyjamenn sögðu allir við mig: „Þú ert langflottastur! LANGFLOTTASTUR!“ En kannski er þetta bara meðvirkni í fólki. Fólki segir nú oftast bara Frábært. „Varstu í klippingu? Frábært!“
(Ég fer aftur inn á Te & Kaffi og athuga með bollann minn. Það er ekkert að SKE. Fyrirhugaður orðaleikur.)
SKE: Þetta ætlar að taka sinn tíma.
Júníus: Við komum aldrei hingað aftur.
SKE: Nei …
(Það er stutt þögn. Við sitjum á móti skrifstofum SKE og Júníus bendir í átt að glugganum.)
Júníus: Og þú ert bara þarna. Síhrækjandi út um gluggann.
SKE: Og alltaf í átt að túristunum …
(Elín Ey gengur framhjá og heilsar Júníusi. Hún er eins og Jedi Knight. Sith Lord. Ég er eitthvað óþolinmóður og fer aftur inn í leit að bollanum og enn ekkert að gerast.)
SKE: Hvernig hefur platan selst?
Júníus: Bara mjög vel. Plötusala á Íslandi er ekki í neinu svaka stökki. Umboðsmaðurinn minn var að segja mér að hún hafi verið í fyrsta sæti síðustu tvær vikur.
SKE: Hún fór líka á iTunes?
Júníus: Jú, alveg rétt. Það er ýmislegt að gerast og það er smá „buzz“ í gangi og maður er alltaf fátækastur rétt áður en eitthvað gerist.
SKE: Já.
Júníus: Nú hefur maður verið að dæla peningum í eitthvað verkefni og höfum fengið tækifæri – en það er dýrt að vera sýnilegur.
SKE: Kemur peningurinn úr eigin vasa?
Júníus: Nei, nei. Þetta er allsherjarsvindl. Ég er með fyrirtæki sem er ekki til. Fólk greiðir inn á það. Þannig heldur maður batteríinu gangandi.
SKE: Svona eins og Bernie Madoff?
Júníus: Já, þetta er eins og Wolf of Wallstreet. Ég er nákvæmlega þannig týpa! Ef þú horfir á þá mynd þá ertu að horfa á mig!
(Ég forvitnast aðein um tíðni greiðslna frá erlendum fyrirtækjum. Júníus fræðir mig um málið. STEF greiðir tvær stórar summur tvisvar á ári. Hann hneykslast aðeins á stefgjöldunum á Spotify, þ.e.a.s. muninn á Premium Spotify og fríu útgáfunni.)
SKE: Ertu orðinn ágætlega vel stæður maður?
Júníus: Nei!
(Júníus hlær og ég líka.)
Júníus: Ég vinn bara við tónlist núna. Ég borga mér lág laun, þegar ég get. Allt annað fer í fyrirtækið til þess að halda túrunum gangandi. Ég borga mér bara lægstu launin til þess að komast af. Svo ef ég er að spila með hljómsveitinni þá borga ég þeim. Ég hef samvisku.
(Börnin spyrja hvort að þau mega kaupa sér eitthvað. Júníus réttir litlu frænku sinni 500 kr: „Þú getur farið í Brynju og keypt þér skrúfur,“ segir hann.)
SKE: Svo er heljarinnar túr framundan?
Júníus: Já, það er nóg að gera. Það er öll Evrópa. Pólland, Þýskaland og Sviss.
SKE: Þú ert mjög stór í Þýskalandi?
Júníus: Ég er mjög hávaxinn miðað við marga.
(Við hlæjum.)
SKE: Ég var að „Google News-a“ fyrr í dag og rakst á margar greinar frá þýskum blöðum. Þér gengur vel í Þýskalandi?
Júníus: Já, og líka í Danmörku. Það er erfitt að vera stór í Danmörku. Það sama gildir í Englandi. Englendingurinn heldur bara með Englendingnum.
SKE: Þú varst nú kominn með ágætis „nickname“ á tímabili: Janus Maybach? Geturðu ekki bara logið til um þjóðerni í Englandi?
Júníus: Jú, Janis Melvin. Júníus Mývatn. Janus Maybach. Ef maður heilaþvær fólk … en vill maður vera þannig tónlistarmaður sem allir fara að sjá bara vegna þess að þú ert svo frægur, eða vill maður vera þannig tónlistarmaður sem allir fara að sjá bara til þess að hlusta.
SKE: Eflaust væri maður til í að tilheyra síðari hópnum.
Júníus: En svo er líka sorglegt að selja ekki neitt en fá geggjaða dóma. Listin er náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú – en þú lifir ekki á listinni nema að þú fáir borgað fyrir það.
SKE: Ekki nema að þú deyir.
Júníus: Ha?
SKE: Buckley gaf út Grace 1994. Hún seldist ekki neitt. Svo dó hann og salan rauk upp.
Júníus: Já, ég þarf að sviðsetja dauðann minn.
SKE: Þú gætir nýtt svindlfyrirtækið í það.
Júníus: Eða, heyrðu! Hvernig væri það að láta Pétur Jesú spila nokkur gigg, síðan mundi ég drepa hann!
SKE: Yes! Þetta er eitrað „plot.“
Júníus: Koma honum fyrir kattanef.
SKE: Ég er mjög fátækur sjálfur: Ég skal drepa hann fyrir þig.
Júníus: Já, en síðan átt þú eftir að bugast og fara grenja og ég þarf að drepa þig og þá vindur þetta upp á sig.
SKE: Ég er líka svo „emotional“ týpa; hef ekki taugarnir í þetta.
Júníus: Þetta væri eins og í Very Bad Things, þar sem þeir drápu óvart vændiskonuna. Hann var með hana í einhverjum fimleikum og smellti henni óvart á snagann.
SKE: Alveg rétt, Jeremy Piven!
Júníus: Svo var „psycho-inn“ í hópnum bara: „Við reddum þessu!“ Síðan drap hann bara alla.
SKE: Ég verð með tárin í augunum að reyna kála Pétri Jesú.
Júníus: Og ég bara: „Slakaðu á! Slakaðu á! Eina sem þú þarft að gera er að þegja!“
SKE: Þetta er geggjað. Ég er til í þetta … annars eitthvað?
Júníus: Já, já. Ég er að fara hita upp fyrir Rolling Stones. Verður maður ekki að ljúga einhverju …
(Samtalið tekur beygju í átt að Seinfeld. Ég segi Júníusi frá grínistanum sem skrifaði handrit að nýjum Seinfeld þætti, en þátturinn gerist nokkrum dögum eftir 11. September.)
Júníus: Ég þurfti að kíkja á þetta. Mér finnst Seinfeld skemmtilegur. Ég hef líka horft á Comedians in Cars Getting Coffee. Ég hef gaman að svona bla bla kjaftæði. Spjalla bara og gera grín.
(Ég kinka kolli og finnst eins og þessi athugun eigi ágætlega við yfirstandandi samtal.)
Júníus: Andri Ólafsson, í Moses Hightower, hann býr í íbúðinni fyrir neðan mig og ég er svona Kramer-inn í blokkinni. Allt í einu birtist ég heima hjá honum. Hann er að elda á naríunum og bara: „Já!“
SKE: Ég er með portrett mynd af Kramer í gylltum ramma heima hjá mér.
Seinfeld: Bíddu, Seinfeld, er það ekki með honum þarna … Hvað heitir hann …. bróðir hans í Mighty Ducks … Emelio Estevez.
SKE: Charlie Sheen?
Júníus: Charlie Sheen, baby!
SKE: Bíddu, ha? Í Seinfeld?
Júníus: Nei, ég var að fara rugla. Ég ætlaði að blanda tveimur þáttum saman og pirra þig.
SKE: Two and a Half Men? Þetta var glæsilegur brandari.
Júníus: Þetta var mjög langsótt og tók alveg fimm mínútur af samtalinu.
(Við hlæjum.)
SKE: Það eru útgáfutónleikar og svo fer þetta af stað?
Júníus: Jú, útgáfutónleikar, síðan KEX og svo fer ég út.
SKE: Hvernig er konan að taka þessu stússi?
Júníus: Konan er alveg merkilega spræk. Þar til að íbúðin er tóm og ég kem heim: „Hún var kannski að reyna segja mér eitthvað?“ Nei, nei. Við tölum alveg saman og ég gef henni góðan fyrirvara. En þegar ég var að byrja þá var ég mjög lélegur að segja henni hvað er að gera. Ég er bara þannig. Segi fólki eitthvað sem skiptir engu máli og gleymi að segja það sem skiptir miklu máli.
SKE: Ég er alveg eins: Ömurlegur að slúðra.
Júníus: Maður nennir því ekkert þegar maður kemur dauðþreyttur heim. Maður nennir ekki að tala. Þess vegna þegir maður bara. Ég kem heim, veit kannski fullt af stöffi – en ég þegi.
SKE: Reynslan, maður.
Júníus: Reynslan; ég hef verið giftur í 11 ár.
SKE: Í alvöru?
Júníus: Já, ég var 14, hún var 12.
(Við hlæjum.)
Júníus: Nei, við giftum okkur mjög snemma. Ég var 21 árs og ég 19 ára. Ég veit ekki hvað var í gangi. Ég er alinn upp í kirkju. Það er kannski það. En þetta var ekkert þvingandi. Ég ákvað bara að fara á skeljarnar. Svo fór maður að hugsa þetta og maður er frekar ungur. En ég meina maður breytist ekki. Maður er kannski betri á blaði fyrir sumt. En ég mundi græða meira ef ég væri ekki giftur og fengi barnabætur. En aftur á móti þurfti ég að greiða meðlag. Ég nenni ekki að standa í því.
SKE: 11 ár.
Júníus: Trikkið er að vera dofinn og láta þetta líða …
SKE: Ertu með einhverja fasta rútínu?
Júníus: Ég er fríi núna og rútínan er í smalli. Ég geri bara það sem mér er sagt að gera. Annars er rútínan yfirleitt þannig að þegar konan fer í vinnuna þá fer ég upp í stúdíó og reyni að vinna eitthvað þar. Svo koma dagar þar sem ég týnist á netinu: „Bíddu hvaða vídjó er þetta!?“ Og allur dagurinn fer í small. Og þá fer ég að vinna á nóttinni til þess að vinna mig upp og þá fer allt í algjört small. Annars er rútínan þannig að ef ég set ekki pressu á mig þá gerist ekki neitt. Ég er of mikill nautnarseggur að fara vakna snemma og vinna í einhvern ákveðin tíma. Ég fer mest eftir hjartanu.
SKE: EN það er líka ákveðin rútína.
Júníus: Já, en það er verst: Ég er ekki með hjarta. Ég veit ekkert hvað ég er að gera.
SKE: Þú ert siðlaus.
Júníus: Siðlaus en fer eftir hjartanu.
SKE: Hvað stóð upp úr í sumar.
Júníus: Það sem stóð upp úr var að ég keypti mér húsbíl. Ég seldi íbúðina mína í Eyjum og fékk húsbíll upp í. Þetta er gamall húsbíll frá 1983. Mjög töff. Ég hef aldrei fundið svona mikla gleði frá því að ég fæddist. Eða svona frá því að ég var 12 ára gamall; allt eftir kynþroskann var niðrávið.
SKE: Sérstaklega eftir brúðkaupið?
Júníus: Sérstaklega eftir brúðkaupið! Fyrir konuna.
(Það hleypur lítið barn framhjá borðinu okkar og dettur á andlitið. Barnið byrjar að skæla og föður barnsins reynir að hugga það. Júníus spyr hvort að ég hafi fellt barnið.)
SKE: Ég er að hita upp fyrir Pétur Jesú.
Júníus: Byrjar á þeim sem geta ekki varið sig … en já, það sem stóð upp úr var náttúrulega fríið með fjölskyldunni. Svo voru það tónleikarnir á Hróaskeldu. Ég var með brasshljómsveit og það er alltaf skemmtilegast að spila með stóru bandi. Ég fékk líka súkkulaði með andlitinu mínu. Það fengu reyndar allir þannig.
SKE: Það er næs.
Júníus: Svo hitti ég reyndar Jack Black og trommarinn minn, Kristófer, var með Nacho Libre grímu. Við stukkum inn í tjaldið hans og stríddum honum aðeins.
(Júníus sýnir mér myndband á Instagram síðunni sinni þar sem hann og Kristófer læðast aftan að Jack Black og sýra í honum með Nacho Libre grímum. https://www.instagram.com/juniusmeyvant/. Samtalið fjarar út í enn meiri vitleysu og ég kveð … Þann 27. ágúst mun Júníus Meyvant halda veglega útgáfutónleika í tilefni af útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar „Floating Harmonies,“ en platan kom út 8. júlí. Júníus mun stíga á svið ásamt strengja- og blástursveit og verður upphitunin í höndum Axels Flóvents (miðasala er hafin á Tix.is). SKE hvetur alla til þess að mæta.)