Í allan dag hef ég hallað höfðinu fram, beint nefinu í átt að símaskjánum, líkt og að nasirnar væru að þefa, þrálátt, af litlum, svörtum blómvendi – Litlum. Svörtum. Kassalöguðum. Blómvendi. En síminn minn er ekki blómvöndur. Síminn minn gefur ekki frá sér lykt. Síminn minn er eins lyktarlaus og hlutleysan (abstraction). Og er það ástæðan fyrir því að ég er órólegur í kringum símann minn; mig grunar að á bakvið alla þessa dýrindis tækni – öll þessi ljós, forrit og fallegheit – hvíli svört vél hlutleysunnar: vél sem nærist á fyrirbærum heimsins; dregur þau í burtu, þjappar þeim saman og gerir þau, þar með, fjarlæg (hvað er smæðin annað en fjarlægð?).
Vitaskuld er það dásamlegt! Að hafa í höndum sér tónlist Ninu Simone; skriftir Montaigne; málverk Van Gogh; uppskriftir; orðabækur; alfræðrit; raddir og andlit þeirra sem maður elskar – en mig grunar að allt þetta, rifið burt úr heiminum, samþjappað, samandregið, útFLATT – gert að tölta í takt við málmkenndan hrynjanda vélanna – geri það að verkum að þessi fyrirbæri glati hluta af sjálfum sér, og að ég, þar með, glati hluta af sjálfum mér, líka.
Í símanum er eitt fjall, öll fjöll; ein kona, allar konur; öll fyrirbæri svipt samhengi og tíma og andrúmslofti – og hægt og rólega (og í tragísku ógáti) verður mannsheilinn samdauna þessum ÓRAUNVERULEIKA … óraunveruleikinn blæðir inn í heilann eins og trönuberjasafi.
En hey, hlustaðu:
Ég hef ekkert á móti tækninni, símanum eða framþróuninni. Ég er á móti því að maðurinn gefi sig, fullkomlega, á vald tækninnar. Að hann leyfi sjálfum sér að renna blint í hyldýpið án spurninga, efasemda eða innsæis.
Innsæi mitt er þetta:
Mig grunar að síminn stuðli jafnt að sameiningu sem aðskilnaði, að um leið og hann sameinar heiminn í lófa mannsins, ýtir hann honum í burtu … þessi tilfinning kviknar í brjósti mér er ég rölti um götur Reykjavíkur og tek EKKI eftir trjánum, skýjunum eða sólinni; þegar ég verð var við eitthvað fallegt og dreg símann úr vasanum, ósjálfsrátt, til þess að taka mynd. Þessi tilhneyging – að taka mynd – finnst mér vera merki um uppgjöf hugans; hugurinn nær ekki lengur utan um þessi fyrirbæri; tengist þeim ekki; hefur glatað hæfninni til þess að skynja, meta, dást – hugurinn er vanmegna …
Þegiðu nú, helvítis Ludditinn þinn !
Já, herra.
Orð: Ragnar Tómas