Auglýsing

„Sparaðu hvorki sápu né vatn.“ (Lögberg 1919)

Öldin önnur

„Ef þetta nýbyrjaða ár á að vera gæfuríkasti kaflinn í æfi þinni, þá þarf heilbrigði þín að standa á fastari fótum en nokkru sinni áður.“ 

Svo hefst grein eftir mann að nafni Addington Bruce, sem birtist í tímaritinu Lögberg fyrir akkúrat 100 árum síðan, eða þann 9. janúar 1919. 

„Heilbrigði er grundvöllur hamingjunnar,“ ritar Bruce: „og sem betur fer, er heilbrigðisástandið í langflestum tilfellum mönnum í sjálfsvald sett.“ 

Í kjölfarið reifar Bruce nokkrar reglur sem mönnum ber að fylgja ef hugmyndin er sú að halda góðri heilsu.

Þar sem fjölmargir Íslendingar leitast við því að efna nýársheitin, sem þeir strengdu um áramótin, er áhugavert að rýna í þær reglur sem Bruce leggur til—því sumar eiga vafalaust jafn vel við í dag.

#1 Sýndu hófsemi

„Eitt af því fyrsta, sem athuga þarf, er fæðan, sem þú neytir. Ofát er óvinur heilbrigðarinnar, engu síður en hungur.“ 

#2 Borðaðu reglulega, starfaðu reglulega, sofðu reglulega

„Gamla, og eiginlega þó nýja, kenningin um átta stunda vinnu; átta stundir til borðhalds, lesturs og skemtana; og átta stunda svefn; á enn við og er enn jafn gullvæg regla. Rataðu meðalveginn, að því er til kemur skemtana og starfs. Þa er alveg eins óholt að njóta ofmikilla skemtana, og leggja of hart að sér í vinnu. Meðalhófið er vandratað, en það er hollast í hverju sem er.“

#3 Haltu hörindinu hreinu

„Sparaðu hvorki sápu né vatn.“ 

#4 Andaðu að þér fersku lofti

„Opnaði ekki gluggann með hikandi hendi—ferska loftið er þér engu síður nauðsynlegt á nóttunni en á daginn … taktu ávalt opnum örmum á móti hreina loftinu og sólskininu inn í herbergi þín, búðina, skrifstofuna eða verksmiðjuna.“ 

#5 Gakktu í vinnuna

„Láttu ekki þægindi sporvagnsins ná á þér haldi. Farðu gangandi til vinnu þinnar og heima aftur að kveldi, nær sem því verður við komið. Þú eyðir við það ef til vill nokkru meira í skófatnað. En reikningurinn fyrir læknishjálp, verður lægri að sama skapi, eða vel það.“ 

#6 Starfaðu

„Iðjuleysið er gróðrastöð óteljandi sjúkdóma.“ 

#7 Vertu herra tilfinninga þinna

„Gleymdu því aldrei að mörgum sinnum fleira fólk deyr árlega af völdum geðæsinga og hugarvíls, en af ofmiklu striti. Ofsareiði, öfund og hatur skapa mörgum manni aldurtila um örlög fram. Slíkar illvættir eru ef til vill ekki ávalt eins bráðdrepandi og skæðustu landfarssóttir, en þær naga ræturnar undan lífsstofni þínum og gefa engin grið. Í sporum þeirra spretta allskonar sjúkdómar, svo sem sykursýki, nýrnaveiki, hjartveiki, magnþrot o.s.frv.“ 

#8 Ræktaðu blóm vináttunnar hvar sem þú færð því við komið

„Láttu engan dag svo að kveldi koma, að þú hafir eigi látið eitthvað gott af þér leiða—glatt einhvern er hryggur var. Með því varðveitir þú ávalt í sálu þinni ljóstraustið—bjartsýnina, og bjartsýnin er ávalt hin öruggasta verndardís heilbrigðarinnar.“  

Grein Bruce endar svo með eftirfarandi orðum:

„Enginn má halda að hér hafi öll guðspjöll heilbriðgarinnar talin verið. En sá, sem í alvöru kostar kapps um að lifa í sem beztu samræmi við þessi fáu atriði heilsufræðinnar, mun sannfærast um gildi þeirra, áður en langt um líður.“

Áhugasamir geta lesið greinina í upprunalegu formi hér að neðan:

https://timarit.is/view_page_in…

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing