(Uppfært: 20. desember, 12:05)
Í gær (19. desember) birti breska tímaritið The Economist ofangreint myndband á Youtube-síðu sinni.
Í myndbandinu er leitast svara við spurningunni Hvar standa konur best að vígi í heiminum? (The best place to be a woman?). Svarið gæti verið á Íslandi, samkvæmt The Economist.
Líkt og fram kemur í upphafi myndbandsins hefur Ísland verið leiðandi á sviði kynjajafnréttis í tæpan áratug: „Þá styður íslenskt samfélag við mæður svo þeim sé unnt að snúa aftur á vinnumarkaðinn og reyna Íslendingar einnig að sporna markvisst gegn staðalímyndum kynjanna, sem og launamun kynjanna.“
Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, er meðal viðmælenda þáttarins.
„Ef við ætlumst til þess að strákar séu ávallt sterkir, ákveðnir og ráðandi, þá endar það með því að þeir leggi aðra í einelti, lendi í slagsmálum eða brjóti af sér. Það sama á við með stelpurnar. Ef við ætlumst til þess að stelpur séu ávallt hjálpsamar og umhyggjusamar; að þær hugsi ávallt um aðra fyrst; eða horfi alltaf til vina sinna til samþykkis—þá gleyma þær sjálfum sér. Við þurfum að færa okkur frá þessum öfgum og nær miðjunni.“
– Margrét Pála Ólafsdóttir
Þá er einnig rætt um fæðingarorlof á Íslandi og jafnlaunavottunina sem var lögfest í fyrra.