Synth Babes, alþjóðlegt samstarfsnet og frumkvöðlafyrirtæki kvenna, trans og kynsegin fólks í raftónlist, eru komin til landsins til þess að halda fyrstu SYNTH BABES FEST hátíðina, í samstarfi við félagasamtökin Stelpur rokka!,sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa af femínískri hugsjón við að efla ungar stelpur (sís og trans), trans stráka, kynsegin- og intersex börn og ungmenni í gegnum tónlistarsköpun.
Um helgina munu tónlist, femínismi og tækni renna saman við nýsköpun og innblástur. Hátíðin er einnig liður í svokölluðum Pepp-viðburðum, sem Stelpur rokka! hafa staðið að síðastliðinn vetur í samstarfi við Loft í Bankastræti.
Fjölbreytt íslenskt og erlent tónlistarfólk mun stíga á svið, spila og segja frá græjunum sínum. Sýnd verður heimildarmyndin Wild Dogs eftir Saga Gärde og Elin Lilleman Eriksson, sem fjallar um þátttakendur í femíníska pródúsentaprógramminu “Vem kan bli producent” í Svíþjóð. Einnig verður boðið upp á raftónlistarvinnusmiðju fyrir allan aldur, hljóðtilraunastofu þar sem hægt verður að prófa nýjustu tækni í tónlistarsköpun og flutningi, ásamt pallborðsumræðum um tónlist, tækni og jafnrétti.
Eftirtalið tónlistarfólk stígur á svið:
Plasmabell (IS)
Tusks (UK)
Tanya Pollock (IS)
Special-K (IS)
rauður (IS)
Ninoosh (AU)
Loljud (SE)
Synth Babes Fest fer fram um helgina, 30. júní – 1. júlí, á Loft í Bankastræti. Frítt er inn, öll velkomin og aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun er gott.
Til að geta gert hátíðina sem veglegasta standa Synth Babes að hópfjármögnuninni #SYNTHBABESUNITE í gegnum Pozible, sem hrint var af stað 10. maí síðastliðinn. Þar er m.a. hægt að verða sér úti um tónlistarforritin Ableton Live og Reason á góðum afslætti, ásamt listaverkum, sérsmíðuðum raftónverkum og ýmsum öðrum varningi. Síðast en ekki síst er hægt að bóka sérstaka Synth Babes stofutónleika í Reykjavík, sjá nánar hér.
“Ég tók þátt í vinnusmiðju á vegum Synth Babes í Malmö, Svíþjóð, í byrjun árs, og langaði að verða hluti af þessu samstarfsneti. Ég tók þátt í stofnun Stelpur rokka! á Íslandi árið 2012 og hef starfað sem verkefnastýra þar síðustu 6 ár. Í sumar ætlum við í fyrsta skipti að bjóða upp á raftónlistarlínu í 13-16 ára rokkbúðunum, en ásamt sjálfboðaliðum Stelpur rokka! ætla Synth Babes tónlistarkonurnar Ninoosh og Loljud að leiðbeina á raftónlistarlínunni. Við ákváðum svo að taka þetta skrefinu lengra og skella í tónlistar- og tæknihátíð í leiðinni!” segir Auður Viðarsdóttir tónlistarkona og verkefnastýra hjá Synth Babes.
Stofnandi Synth Babes, hin ástralska Anya Trybala (Ninoosh), segir: “Ég stofnaði Synth Babes (sem áður hét Synth Babe Records) árið 2016. Hingað til höfum við starfað sem sjálfstæð plötuútgáfa, en nú langar mig virkilega að Synth Babes láti til sín taka sem alþjóðleg hreyfing sem stuðlar markvisst að breytingum í tónlistar- og tæknibransanum.”
Nýleg rannsókn á vegum femíníska raftónlistarnetsins female:pressure leiddi í ljós að á 122 raftónlistarhátíðum í 32 löndum voru tæplega 20% tónlistaratriðanna með kvenkyns tónlistarfólk innanborðs. Meistararannsókn Auðar Viðarsdóttur á upplifun tónlistarkvenna af tækni sýndi jafnframt fram á að kvenkyns tónlistarmenn og pródúsenta skortir umfram allt sýnilegar fyrirmyndir og aðgengileg rými þar sem þær geta prófað sig áfram með tæki og tól og þróað hæfileika sína á eigin forsendum.
“Okkur langar að kanna ólíkar leiðir til að stuðla að kynjajafnvægi og nálgast þetta markmið á breiðum grunni, t.d. með því að gera tónlistarforrit og græjur aðgengilegri fjárhagslega, taka þátt í tónlistarlegri nýsköpun á sviði VR / AR tækni og nýta nýjustu tækni í dreifingu stafræns efnis í þágu tónlistarfólks sem er í minnihluta í tónlistar- og tæknibransanum. Og síðast en ekki síst langar okkur að vera lifandi samstarfsnet og lyftistöng fyrir upprennandi tónlistarfólk, og standa að spennandi viðburðum eins og Synth Babes Fest um allan heim”, segir Anya Trybala.
Synth Babes samstarfsnetið nær nú allt frá Ástralíu til Mexíkó og Íslands, en kjarnastarfsemin fer fram í Malmö í Svíþjóð.
Okkur langar að kanna ólíkar leiðir til að stuðla að kynjajafnvægi og nálgast þetta markmið á breiðum grunni, t.d. með því að gera tónlistarforrit og græjur aðgengilegri fjárhagslega, taka þátt í tónlistarlegri nýsköpun á sviði VR / AR tækni og nýta nýjustu tækni í dreifingu stafræns efnis í þágu tónlistarfólks sem er í minnihluta í tónlistar- og tæknibransanum.
– Anya Trybala