Auglýsing

„Það þarf að vera einhver moðerfokker á bassanum!“

SKE spjallar við Klöru Arnalds

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Klara Arnalds

SKE: Blaðamannaviðtöl eru þversagnakennd fyrirbæri. Tvær manneskjur hittast í fyrsta skiptið (oftast) en spjalla líkt og gamlir vinir. Spyrillinn ber fram nærgöngular spurningar og yfirleitt kippir viðmælandinn sér ekkert upp við þeim, kinkar bara kolli og reiðir fram svör eftir bestu getu. Var þetta raunin þegar ég hitti Klöru Arnalds, söngkonu Boogie Trouble, í fyrsta skiptið – en sá hittingur endurspeglaði þetta þversagnakennda eðli blaðamannviðtalsins fullkomlega. Ég spurði hana persónulegar spurningar sem snéru að fyrstu kynnum hennar og kærasta síns; tilgangi lífsins; og hvaða áletrun hún myndi helst velja á grafsteininn sinn – og hún jánkaði bara og svaraði í mestu makindum. Ef aðeins öll samtöl færu á þennan veg.

(Ég geng inn á Te & Kaffi, olnboga mig í gegnum túristaþvöguna og kem mér fyrir aftast í röðinni. Mannalestin er löng og hæg og andstyggileg og finnst mér eins og ég sé að sigla niður bugðótt fljót í helvíti; árarnar gusla í biksvarta vatninu. Loks þegar siglingunni lýkur panta ég mér cappuccino og dokra við hlið afgreiðsluborðsins: „Lífið er biðröð sem endar með vonbrigðum,“ hugsa ég, sérdeilis jákvæður í uppsveiflu efnahags og sálar. Um þann mund sem ég er við það að drukkna ofan í hyldýpi mannlegrar tilvistar, gengur brosmild ung kona inn um dyrnar í svörtum kjól. Á undan sér ýtir hún barnavagni. Ég kynni mig.)

SKE: Hæ. Raggi.

Klara: Já, ég er að koma hitta þig! Sæll. Klara.

(Við tökumst í hendur og ég lít niður í átt að barnavagninum. Þar hvílir lítið spakt barn.)

Klara: Þetta er hann Þröstur – örugglega eina kornabarnið sem væri hægt að lýsa sem „kammó.“

(Ég hlæ. Fleiri kornabörn ættu að taka þetta friðsamlega viðmót sér til eftirbreytni.)

SKE: „Tvær stillingar: þreyttur eða mjööög glaður,“ sagðirðu víst í einhverju viðtalinu.

Klara: Jú, mikið rétt.

(Það er fremur skrítið að hitta manneskju í fyrsta skiptið og vitna síðan í sömu manneskjuna í nánast fyrstu setningu – en svona er þetta bara: „Where’s your will to be weird?“ og allt það. Klara horfir niðurlút á röðina, ákveður svo að leggja í logheimasiglingu í von um að veiða íslatte upp úr fljótinu. Ég kveð hana í bili og sest við hliðina á túrista í gallabuxum. Hann hvílir hægri fót á hné sér. Við mér blasa gráir spariskór með neon-grænum sólum. „Weird.“ Röðin þokast áfram og ég bíð. Nokkrum mínútum síðar sest Klara andspænis mér og við byrjum að rabba. „Djöfull er hann tjillaður,“ segi ég og bendi á barnið.)

Klara: Hann er bara svona.

SKE: Alltaf?

Klára: Já, eiginlega. Nema þegar hann er svangur, en þá gefur maður honum bara að borða og þá er hann góður.

(„Það sama á við flesta menn,“ hugsa ég með sjálfum mér.)

SKE: Útgáfutónleikar Boogie Trouble fara fram á föstudaginn 10. júní á Húrra – og þið komið fram ásamt strengjasveit?

Klara: Þriggja-manna strengjasveit, tveir blásarar, bakraddasöngkona og dansari. Það verður öllu til tjaldað. 14 manns á sviðinu.

(Ég spyr hvað Húrra rúmi marga gesti: „200 manns,“ segir Klara.)

Klara: Tónleikar með Boogie Trouble eiga að vera svolítið sveittir. Ekki eins og „metal“ tónleikar, endilega, en þetta á að vera þétt og heitt.

SKE: Ég var að lesa gagnrýni sem Arnar Eggert Thoroddsen ritaði og mér fannst hann lýsa ykkar tónlist vel. Hann sagði að Boogie Trouble væri eins og „alíslensk stuðsveit frá áttunda áratugnum.“

Klara: Já, honum tókst að fanga þetta vel.

SKE: Nafnið sjálft, Boogie Trouble, kom til alveg óvart, ekki satt?

Klara: Jú. Við vorum byrjuð að bóka gigg en hétum ekki neitt. Svo kom þetta á einhverju djammi. Þetta er fínt nafn, sem slíkt, en gefur ekki endilega til kynna að það séu djúpar pælingar á bakvið tónlistina. Á einhverjum tímapunkti töluðum við um það að skipta um nafn, en það væri til marks um það að við tækjum okkur of alvarlega – og það er bara asnalegt. Í grunninn er þetta bara stuð.

SKE: Hefur þú sungið alla tíð?

Klara: Nei. Ég byrjaði þegar hljómsveitin var stofnuð, í rauninni. Fyrir þremur árum síðan. En ég kem úr tónlistarfjölskyldu.

SKE: Arnalds fjölskyldunni?

Klara: Arnalds klanið: Arnalds og Eldjárn, þetta eru stóru blokkirnar í tónlistarlífinu. Maður þyrfti helst að stofna til einhvers konar ættarerju („feud“).

(Við hlæjum. Ég er við það að vitna í Shakespeare en segi næstum því „Romulans og Capulets,“ í staðinn fyrir „Montagues og Capulets,“ og hætti í miðri setningu. Klara heldur sem betur fer áfram að tala um Arnalds klanið – og kemur í veg fyrir það að ég geri sjálfan mig að fífli, og Star Trek nörda, sem ég er ekki.)

Klara: Ólöf Arnalds er systir mín og ég og Óli Arnalds erum systkinabörn. Það var mikið sungið í fjölskylduboðum. Ég söng í fyrsta og eina skiptið á mínum unglingsárum í söngvakeppni Frostaskjóls. Svo söng ég ekki aftur fyrr en 2011, en þá plataði systir mín til þess að syngja bakraddir með sér á Bob Dylan Tribute tónleikum í Hörpunni. Hún gaf mér ekki nógu miklan fyrirvara til þess að ég gæti hætt við. Síðan var ég komin á svið fyrir framan 700 manns í beinni útsendingu á Rás 2.

SKE: Hvernig var það?

Klara: Ég skalf bara og fór í „black-out.“ Ég man ekkert eftir þessu. Svo var uppklapp og þá stigu allir upp á svið aftur. Allt í einu stóð ég við hlið Björgvins Halldórssonar og Lay Low – og Björgvin tók utan um okkur báðar mjög föðurlega.

(Klara leikur sérstaklega hressan Björgvin Halldórsson.)

Klara: Ég hugsaði: „Ég er í hliðarvídd. Ég er í einhverri fáránlegri hliðarvídd!“

(Við hlæjum mjög innilega.)

Klara: Þetta var fyrsta giggið. Eftir það var andinn kominn úr lampanum – og mér hefur ekki tekist að troða honum aftur síðan. Boogie Trouble er því í raun frumraun mín í tónlistinni. Hin í bandinu eru eldri jálkar.

SKE: Ég var að horfa á settið ykkar á KEX á Youtube. Djöfull er hún tryllt á bassanum, hún Ingibjörg.

Klara: Ef maður væri minna auðmjúkur þá væri erfitt að vera með henni í bandi. Fólk er einhvern veginn alltaf á sama máli, eftir tónleika: „Fínir tónleikar – en sáuð þið bassaleikarann!“ Hún stelur alltaf senunni. Fólk missir andlitið.

SKE: Það er svo mikið „groove“ í henni. Er það ekki líka hjartað í boogie tónlist: bassinn?

Klara: Jú, bassinn verður að vera þéttur. Þó svo að BeeGees hafi stundum verið með frekar daprar bassalínur, en við leitum frekar innblásturs til dekkra diskós – það þarf að vera einhver moðerfokker á bassanum!

(Ég hlæ. Hugmyndin um Ingibjörgu sem þessi moðerfokker á bassanum hrífur mig.)

SKE: Platan fjallar um dauðann og ástina, ekki satt?

Klara: Það eru þrjú meginþemu á plötunni: dauðinn, ástin og djammið.

SKE: Meginstoðir lífsins.

Klara: Já, ætli það ekki.

SKE: Ég heyrði góða lýsingu á titillagi plötunar, sem fjallar um þetta sígilda íslenska djamm: „Fuck first, ask questions later.“

(Við hlæjum mjög dátt.)

SKE: Hafið þið maðurinn þinn verið lengi saman?

Klara: Nei, við byrjuðum reyndar bara saman fyrir rétt rúmum tveimur árum. Höfðum ekki verið saman í ár þegar ég varð ólétt. Lífið bara keyrði á mig eins og lest. Mér tókst að fara upp í – en ekki undir.

SKE: Kynntust þið á djamminu?

Klara: Við kynntumst á Snaps. Ég vann þar um skeið og hitti þennan ljómandi sæta kokk sem ég svo klófesti. Tveimur mánuðum seinna fór ég til New York í starfsþjálfun. Ég hafði búið úti tvisvar áður og í bæði skiptin verið í fjarsambandi og ég var eiginlega ekki að nenna því: þessu endalausa hangsi á Skype. Ég setti þetta í salt. En í minni fjarveru þá ákveður hann sig, drengurinn. Segir við föður sinn að ég væri kærasta hans, þó að ég hafi ekki vitað það – sem er minna „creepy“ en það hljómar.

(Enn frekari hlátur.)

Klara: Svo kem ég heim og þá bíður hann eftir mér á flugvellinum með rósir. Hann er ekki með bílpróf, heldur sækir hann mig á flugrútunni. Við fengum ekki einu sinni sæti hlið við hlið. Ég sit fyrir aftan hann og stari á hnakkann á honum og hugsa: „Hvað er ég búin að koma mér út í!?“ Með blómin í fanginu.

(Enn meiri og innilegri hlátur. Túristarnir verða hálf smeykir.)

SKE: Og þú bara ólétt nokkrum mánuðum seinna?

Klara: Og nú bara móðir, trúlofuð, búin að kaupa mér íbúð með garði og rabbabara og rifsberjum.

SKE: Framundan eru tónleikar og svona …

Klara: Já, við spilum á stórri hátíð um Verslunarmannahelgina, en segi ekki meir í bili. Við erum í rauninni fyrst núna að spila af einhverju viti, því ég varð ólétt – eins og frægt er orðið – og þú spilar ekki svona tónlist ólétt. Það er ekki eins og þú getir hlunkað þér í einhvern barstól og gaulað. Þú þarft að hoppa um og það er bara vandræðalegt fyrir alla. Ég var bara eins og Barbapabbi í laginu. Þannig að við þurftum að hætta að spila tiltölulega snemma og einbeittum okkur að plötunni. En við erum aðeins byrjuð að banka upp á aftur.

SKE: Ég er með nokkrar vel sýrðar spurningar hér í lokin. Ég er til dæmis með eina sérhannaða fyrir grafíska hönnuði: Ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér sem letri í fáguðu svissnesku menningariti – hvernig myndi sú lýsing hljóða?

(Klara hugsar sig um.)

Klara: Ég myndi segja að letrið Klara er geometrískt og ágætlega vel skipulagt en þó með óvæntum „element-um“ og skrauti sem gleður augað.

SKE: Vel gert!

(Við hlæjum.)

SKE: Ég bjóst fullkomlega við því að þú myndir setja upp saltkringlusvip og biðja um að senda mér svar í tölvupósti seinna.

Klara: Nei, nei. Ég sé þetta fyrir mér. Ég þarf bara að fara heim og hanna þetta.

SKE: Ég fer eiginlega fram á það að viðtalið birtist á netinu í þessu letri.

Klara: Ókay. Engin pressa. Ég hef tvo daga.

SKE: Hefur lífið tilgang – og ef svo er, hver er tilgangurinn?

Klara: Er það ekki. Jú … (Klara hugsar sig um.) … Þessi er flóknari. Já. Lífið hefur tilgang … tilgangurinn er … að leitast við að finna og skapa gæði í öllum hlutum.

SKE: Hmmmm …

Klara: Að finna gæðin þar sem þau eru til staðar og njóta þeirra – en annars að skapa þau, ef maður getur.

(Þessi lýsing á tilgangi lífsins kemur mér í opna skjöldu. Heilasellurnar ljóma. Að skipta lífinu í tvennt: annars vegar í þau augnablik þar sem gæðin finnast, sumsé, góðar stundir með fjölskyldu og vinum, list og fleira – og hins vegar í þau augnablik þar sem gæðin finnast ekki, sumsé, í umferðinni, í löngum biðröðum á Te & Kaffi og í öðrum smávægilegum leiðindaverkum. Þar verður maður að skapa gæðin, hvort sem í gegnum skapandi hugsun eða kannski með góðum „podcast.“ Mér finnst eins og ég sé staddur í bókinni Zen og listin að viðhalda mótorhjólum.)

SKE: Þetta er með betri svörum sem ég hef heyrt – og þetta var spontant.

Klara: Þetta gat hún.

SKE: Sjúklega vel gert … ef þú yrðir að velja áletrun á grafsteininn hver myndi sú áletrun vera?

Klara: Ætli að það væri ekki þetta klassíska: „Elsku dóttur, systir, eiginkona og móðir.“ Vegna þess að legsteinar snúast ekki um þig, heldur um fólkið sem man þig. Mér finnst það mest viðeigandi. Í öllu falli mundi ég ekki vilja koma egóinu fyrir á steininum.

SKE: Það er grafsteinn í Maryland fylki í Bandaríkjunum sem mig langar að stela: „Here lies an atheist, all dressed up – but nowehere to go.“

(Við hlæjum.)

Klara: Eða slagorðið hans Elvis: TCB in a flash.

(Meiri hlátur.)

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða „one-liner“?

Klara: Ég á enga svoleiðis … Ég þarf að hugsa þetta. Þetta drepur „streak-ið“ mitt.

SKE: Þú varst komin á svo mikið flug að það væri eiginlega ósanngjarnt hefðir þú haldið áfram að svífa hærra.

(Ég þakka Klöru kærlega fyrir spjallið, hjálpa henni svo að koma barnavagninum niður tröppurnar. Svo reyni ég að taka myndir af henni en það gengur ekki neitt. Hvar er Allan ljósmyndari þegar maður þarf á honum að halda? Loks skilja leiðir og ég rölti í átt að skrifstofunni hugsi, velti mér upp úr orðum Klöru: „Að finna gæðin þar sem þau eru til staðar og njóta þeirra. Annars skapa þau, ef maður getur.“ Þetta er heimspeki.)

SKE hvetur alla til þess að mæta á útgáfutónleika Boogie Trouble á Húrra á föstudaginn (10. júní). Hér eru svo nokkur góð lög og myndbönd með bandinu … takið sérstaklega eftir moðerfokkernum á bassanum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing