Kronik
Það var heldur betur nóg um að vera hjá umsjónarmönnum Kronik á Secret Solstice um helgina en ásamt því að fylgjast með öllum þeim listamönnum sem stigu á svið í Laugardalnum var þátturinn sjálfur útvarpaður beint frá hátíðinni síðastliðið laugardagskvöld (17. júní) í notalegu tjaldi fyrir aftan Gimli.
Eins og oft áður var mikill gestagangur í þættinum: Kilo, Alvia Islandia, Geisha Cartel, Mælginn, Úlfur Úlfur og Left Brain úr Odd Future kíktu við. Sá síðastnefndi ræddi meðal annars Secret Solstice og nýja mixteipið sitt ásamt því að grípa aðeins í hljóðnemann og flytja nokkrar rímur í beinni (sjá hér fyrir ofan).
Eins og fram kemur í viðtalinu telur Left Brain það ólíklegt að ný plata með Odd Future komi út í ár eða á næsta ári:
„Við erum enn í bandi þó svo að við séum ekki að gera tónlist sem Odd Future … þó svo að mig langi það – ef ég gæti komið öllum strákunum saman – en þetta er eins og (að reyna smala öllum meðlimum) Wu-Tang (saman).“
– Left Brain
Fyrir þá sem ekki þekkja til samvinnuhópsins Odd Future (Wolf Gang Kill Them All) þá samanstendur hópurinn af 13 (áður fyrr 15) ansi merkilegum tónlistarmönnum þar á meðal Tyler the Creator, Frank Ocean, Syd (úr The Internet), Earl Sweatshirt og fleirum.