Fréttir
Næstkomandi 24. maí verður leikin útgáfa af ævintýramyndinni um Aladdin frumsýnd. Í tilefni þess birti Walt Disney Studios, framleiðandi myndarinnar, nýja stiklu úr myndinni á Youtube í gær (sjá hér að ofan). Þegar hafa rúmlega tvær milljónir manna horft á myndbandið.
Ef eitthvað er að marka athugasemdakerfi Youtube eru margir óánægðir með leikaraval myndarinnar. T.d. eru margir sammála ummælum Youtube-notandans TheCanadianSpartan sem lýsir því yfir að það komi enginn í stað bandaríska leikarans heitins Robin Williams. Williams fór með hlutverk töfraandans í teiknimyndinni Aladdin sem kom út árið 1992. Í nýju útgáfunni er það hins vegar Will Smith sem fer með hlutverk töfraandans (Robin Williams lést árið 2014).
Þá eru einnig margir á því að tölvubrellurnar séu hálf hallærislegar: „Þetta lítur mun verr út en ég hafði ímyndað mér,“ segir einn.
Líkt og fram kemur á kvikmyndir.is fjallar Aladdin um götustrák „sem hittir hina heillandi og ákveðnu Jasmine prinsessu og andann í glasinu, sem gæti verið lykillinn að framtíð þeirra.“
Nánar: https://kvikmyndir.is/mynd/?id…
Hér fyrir neðan er svo stiklan úr upprunalegu Aladdin.