SKE: Það eru margar tegundir af rappi. Það er „old-school“ rapp, íslenskt rapp, elektrónískt rapp og svo er það „old-school“ íslenskt rapp með elektrónísku ívafi sem jafnframt daðrar við svokallað Bændastep, við og við – en segja má að fyrrgreind lýsing eigi vel við hljómsveitina TZMP (áður The Zuckakis Mondeyano Project). Næstkomandi fimmtudag 9. febrúar ætlar TZMP (hljómsveitina skipa þeir Árni Kristjáns og Steinn Linnet) að halda útgáfutónleika á Prikinu: „Mjög sérstakir gestir, hoppikastali og verðlaun fyrir besta dansinn,“ stendur í lýsingu tónleikanna. Í tilefni þess heyrði SKE í TZMP og spurði þá nánar út í herlegheitin.
Viðtal: RTH
Viðmælendur: TZMP
Mynd: Arnaldur Grétarsson
SKE:
Sælir, félagar. Hvað er títt?
TZMP:
Allt það fína eins og keisarinn í Kína. Við erum á hundrað
þúsund milljón að undirbúa útgáfutónleika annarrar breiðskífu
okkar Anthology: Simply The Best á Prikinu næstkomandi
fimmtudag.
SKE:
TZMP stendur fyrir The Zuckakis Mondeyano Project og vísar í
listamannanöfn ykkar, þeas Earl Mondeyano (Árni Kristjánsson) og
Robert Zuckakis (Steinn Linnet). Hvaðan koma þessi nöfn?
TZMP:
Nöfnin koma frá háðfuglinum Dennis Pennis þar sem hann var að
lýsa hvernig versta hljómsveit í heimi (besta hljómsveit í
heimi) var stofnuð af þessum tveim mönnum og hvernig ekkert hafi
orðið úr draumum þeirra um frægð og frama.
SKE:
Þið eruð fremi ,old school’ í rappinu ykkar – hvers vegna?
TZMP:
Út af því allir eru svona ,,new school” nú til dags.
SKE:
Nú ætlið þið að koma fram á tónleikum á fimmtudaginn á
Prikinu. Hvað getið þið sagt okkur um tónleikana?
TZMP:
Bestu tónleikar í heimi. Eftir margra ára bil munum við koma fram
með söngkonunni Jenny Kamikaze, sem að syngur lögin okkar
Champagne Girl og Fast Driver meðal annars, og einnig
mun rappgoðið 7berg koma fram með okkur. Svo munu plötusnúðarnir
Kocoon og Ozy sjá um að framreiða gallsúra tóna í hyskið.
SKE:
Þið héldu tvenna útgáfutónleika í Tokyo í ágúst
síðastliðinn. Hvernig voru japanskir hlustendur að taka í þetta
allt saman?
TZMP:
Tónlist er tungumál sem að allir skilja, nema flestir sem að
skilja ekki hvernig raftungumál og akústískt tungumál geta talað
tungum saman á tæpitungulausan hátt án þess að það sé þó
tortyngt. Þeir fíluðu það.
SKE:
Ef þið gætuð unnið með hvaða íslenska rappara sem er, hver
yrði fyrir valinu?
TZMP:
MC Nonni. Nammilagið hans er epískt.
SKE:
Gagnrýnandi frá Morgunblaðinu lýsti ykkur eitt sinn með
eftirfarandi orðum (eftir Quarashi tónleika): “Eina
upphitanarhljómsveit kvöldsins hét því andstyggilega langa nafni
Zuckakis Mondeyano Project, held ég. Þeir voru þarna meira upp á
grínið sýndist mér, voru í asnalegum fötum og gerðu grín að
R&B og rapptónlist. Greininlega eitthvað félagagrín, hent
saman á síðustu stundu.” Hvað finnst ykkur um þessa
lýsingu?
TZMP:
Við vitum alveg hvaðan þau skrif eiga uppruna sinn. Það er bein
lína milli LÍÚ, Seðlabankans, Sjálfstæðisflokksins,
Morgunblaðsins og alla leið niður á Útvarp Sögu. Þetta er
fólk sem er á móti listrænni sköpun, listrænni tjáningu og
hvers kyns andlegri næringu. Það er ekki allt peningar, það er
ekki hægt að borða peninga enda þarf maður að kaupa það sem
maður borðar með peningum.
SKE:
Uppáhalds lag í dag?
TZMP:
Lagið sem er á toppinum á Billboard 200 listanum akkúrat núna.
SKE:
TZMP var stofnað árið 2000. Ef þið yrðuð að lýsa
hljómsveitinni sem norrænni sakamálasögu með óvæntri vendingu
– hvernig myndi sú lýsing hljóða?
TZMP:
Í skjóli nætur eignast Martin Beck barn með Önnu Pihl. Það
barn er sent í djúpfrystigeimskip sem ferðast 10.000 ljósár út
í geim og lendir á geðveikri teknóplánetu. Barnið elst upp og
verður geimskipaumferðarlögga, a la lagið okkar Autobahn
Police.
SKE:
Samkvæmt vefsíðunni Raftónar skapaði TZMP nýja undirstefnu í
trommu & bassaheiminum sem ber heitið Bændastep (Farm Step).
Hvernig mynduð þið lýsa þessari stefnu? Tengist hún, á
einhvern hátt, Bubba Sparxxx?
TZMP:
Stefnan sjálf er grasrótarhreyfing sem að vinnur að því að
melta drum’n’bass tónlist að minnsta kosti fjórum sinnum.
SKE:
Ef þið gætuð valið fyrirsögn þessarar greinar, hvaða
fyrirsögn yrði fyrir valinu?
TZMP:
Eigum við að vinna þína vinnu fyrir þig? Ég held að
fyrirsögnin ætti því að vera “Geturðu ekki skrifað þína
eigin fyrirsögn?”
SKE:
Eitthvað að lokum?
TZMP:
Þú getur unnið 10 evrur. Smelltu TZMP í leit á Facebook.
(SKE hvetur lesendur til þess að mæta á Prikið á fimmtudaginn og hlýða á útgáfutónleika TZMP.)
Nánar: https://tzmp.bandcamp.com/