Auglýsing

„Ég er straight up gangsta – en samt ekki.“ KÁ-AKÁ ræðir nýju plötuna

Viðtöl

SKE: Nöfn þeirra sex laga sem fyrirfinnast á plötunni Bitastæður – sem akureyrski rapparinn KÁ-AKÁ gaf út síðastliðinn 1. nóvember – virðast gefa hlustandanum ágætis mynd af þeim manni sem höfundurinn hefur að geyma: Vinna, Meir, Bóka, Birkir Bekkur, Bitastæður, Púki. Að minnsta kosti lét ónefndur aðili – sem var áður ókunnugur tónlist KÁ-AKÁ – þau orð falla, er hann gaumgæfði lagalistann á Spotify, að „hér væri væntanlega á ferðinni einskonar trúblendingur, sumsé kankvís einstaklingur sem væri búinn að tileinka sér vinnusiðferði mótmælendatrúar („Protestant work ethic“) – en sem hafði þó vit fyrir því að vanrækja ekki sinn innri skratta.; töfranir gerast víst á landamærum himins og heljar, segir hann … nýverið heyrði SKE í rapparanum KÁ-AKÁ og spurði hann nánar út í smáskífuna Bitastæður. Fannst okkur fyrrnefnd teoría að einhverju leyti, að minnsta kosti, endurspeglast í svari rapparans við spurningunni
Hvað aðgreinir þig frá öðrum röppurum?

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Halldór Kristinn Harðarson

SKE: Sæll og blessaður, til hamingju með plötuna. Hvaðan kemur nafnið? Bitastæður?

KÁ-AKÁ: Já, takk fyrir það! Bitastæður kemur bara út frá því að karakterinn minn er bara orðinn svo bitastæður, sem þýðir að afrakstur erfiðis er loks að skila sér og ég er ekkert að fíflast. 

SKE: Gauti er eini gestur plötunnar. Hvernig kom samstarfið til?

KÁ-AKÁ: Við vorum búnir að ræða það fyrir stuttu að gera lag saman og svo lét Björn Valur mig hafa bít um daginn og sagði að Gauti gæti passað vel inn á þetta. Ég skrifaði við bítið og sendi svo á hann og út frá því var hann klár. Við erum líka bara orðnir svo góðir vinir að við þurftum að eiga lag saman. 

SKE: Að þínu mati: Hvernig skerðu þig úr sem rappari / tónlistarmaður? Hvað aðgreinir þig frá öðrum röppurum?

KÁ-AKÁ: Ég er straight up gangsta – en samt ekki; mjög harður en á fallegan hátt. Ég vil bara gera eitthvað sem fólk tengir við á sama hvaða hátt það er og reyni að segja það á eins kúl máta og hægt er. Ég fer samt mínar eigin leiðir og hef alltaf gert; fólk hefur oft tengt mig við eitthvað heilsudót en það er kannski bara að þvi ég lifi þeim lífstíl – svo ég rappa bara um nákvæmlega það. Ef mér líður vel eða illa þá rappa ég um það og ef ég djamma eða lyfti lóðum þá rappa ég um það.

SKE: SKE var mjög virkt á Airwaves og hjó eftir því hversu mörg börn sóttu „off venue“ tónleika íslenskra rappara. Er þetta til marks um að Hip-Hop bólan á Íslandi sé að springa?

KÁ-AKÁ: Hip Hop er bara orðið mainstream; það vilja allir vera töff svo allir hlusta á Hip Hop. Stærstu stjörnur Íslands í dag eru rapparar og þar að leiðandi hlusta margir á rapp, sama hversu gamlir þeir eru.

SKE: Hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér? 

KÁ-AKÁ: Ég er mjög virkur drengur með miklar tilfinningar, hraustur sömuleiðis og góður við alla, maður. Ég hef passion fyrir hlutunum og vilja fyrir því að ná langt.

SKE: Manni finnst oft eins og það sé of mikill hraði á rappsenunni – hvort sem í samhengi íslensku rappsenunnar eða erlendu – en tilfinning er sú að flestir rapparar séu í kappi við tímann að semja ný lög og skjóta myndbönd, til þess að halda sér ‘relevant’, án þess kannski að spá í því hvort að umrædd lög eða myndbönd lifi eitthvað næstu ár eða áratugi. Hvað finnst þér um þessar pælingar?

KÁ-AKÁ: Já, senan er ansi virk þessa dagana; maður hefur varla undan á því að skoða allt sem er að koma út. Það er bæði jákvætt og neikvætt. Menn mega ekki vera of graðir í að bomba efni út. Menn verða lika að geta verið þolinmóðir en ég skil samt alveg fólk sem heldur að það sé að missa úr því það er ekki nógu virkt og ekki að fá eins mikla athygli – en tíminn getur líka oft verið peningar. 

SKE: Hvað stóð upp úr á Airwaves?

KÁ-AKÁ: Ef ég á að vera hreinskilinn þá sá ég ekki mikið af listamönnum á Airwaves í ár. Ætli það hafi ekki bara verið að Airwaves var í fyrsta skipti haldið á Akureyri, það er stór sigur.

(SKE þakkar KÁ-AKÁ kærlega fyrir spjallið og hvetur alla til þess að kynna sér plötuna Bitastæður á Spotify.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing