Í febrúar á þessu ári gaf 16 ára gamall drengur frá Indónesíu út myndband við lagið Dat $tick. Í myndbandinu er drengurinn íklæddur bleikum Polo bol með Reebok mittisbelti er hann rappar yfir drungalegt, minimalískt bít frá nýja skólanum. Þrátt fyrir indónesískan uppruna og jafnframt sakleysislegt, nördalegt útlit, veigrar drengurinn sér ekki við að nota N-orðið.
Myndbandið fór „viral.“
Drengurinn heitir réttu nafni Brian Imanuel en gengur undir listamannsnafninu Rich Chigga. Stuttu eftir að myndbandið kom út fékk vefsíðan Complex þekkta bandaríska rappara á borð við Ghostface Killah og The Flatbush Zombies til þess að bregðast við myndbandinu. Langflestir voru mjög ánægðir með kauða.
Ekki leið á löngu fyrr en Rich Chigga undirritaði plötusamning hjá fyrirtækinu CXSHXNLY, sem hefur gefið út efni eftir asíska tónlistarmenn eins og Dumbfoundead og Keith Ape.
En Dat $tick markaði ekki upphaf Brian Imanuel.
Ferill Imanuel á rætur sínar að rekja til ársins 2012 þegar hann lét til sín taka á Twitter, þá aðeins 12 ára gamall. Fótósjoppuð mynd af honum og forseta Bandaríkjanna Barack Obama fór mikinn á netinu, en á myndinni stendur Imanuel hliðina á forsetanum í peysu merkta N-orðinu.
Ári seinna byrjaði Imanuel svo að gefa út myndbönd á Vine og á Youtube. Fyrsta, og jafnframt furðulegasta, myndbandið sem Imanuel gaf út á Youtube heitir Suicide Hotline: biksvört stuttmynd þar sem Imanuel leikur giftan mann í sjálfsvígshugleiðingum. Hin myndböndin eru mest öll ádeilur á bandaríska dægurmenningu.
Árið 2015 byrjaði Imanuel að deila háðskum tónlistarmyndböndum á Youtube undir nafninu Rich Chigga. Fyrsta myndbandið sem kom út hét Living the Dream. Sjö mánuðum seinna sendi hann frá sér myndband við lagið Dat $tick. Sem Rich Chigga hefur þessi ungi maður frá Indónesíu þolað mikla gagnrýni; notendur Twitter hafa fussað yfir nafninu Rich Chigga sem mörgum finnst vera niðrandi fyrir Asíubúa. Aðrir hafa gagnrýnt hann fyrir notkun sína á N-orðinu. Svo eru þeir sem hafa ásakað hann um menningarlegan stuld („cultural appropriation“).
Svo eru þeir sem finnst hann vera frábær.
Sjálfur segist Imanuel sjá eftir nafninu Rich Chigga en ekki eftir ákvörðuninni að nota N-orðið, þó svo að hann ætli ekki að taka sér það í munn í framtíðinni:
„Þetta snýst allt saman um samhengi. Ég mundi ekki nota orðið í návist þeldökkrar manneskju ef ég þekkti ekki viðkomandi. Ég reyni að sjálfsögðu að forðast að nota orðið í flestum tilvikum, en á sama tíma þá er ég sammála Tyler, the Creator, sem sagði að þetta er bara orð og ef þú sviptir orðinu krafti sínum, þá missir orðið þýðingu sína.“
– Brian Imanuel
Í dag leit ný útgáfa af Dat $tick dagsins ljós á vefsíðunni Complex. Myndbandið skartar engum öðrum en Ghostface Killah og þykir sérdeilis vel heppnað.