Nýverið sendu tónlistarmennirnir Sindri og Arna Margrét frá sér lagið Heim til míns hjarta. Lagið (sem og myndbandið við lagið) hefur fengið afar hlýjar viðtökur á samfélagsmiðlum og að mati SKE kemur það alls ekki á óvart: Hér er á ferð sérdeilis fallegt lag sem skartar einvalaliði hæfileikaríkra hljómlistarmanna.
Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í þeim Marteini Sindra, sem ásamt því að vera höfundur lags og texta syngur og leikur á píanó í laginu, og Örnu Margréti, söngkonu:
„Lagið var samið á köldum vetrardögum í Berlín þar sem ég var í skiptinámi. Ég samdi lagið með ákveðinn stað á Íslandi í huga, fallegan foss í Sælingsdalsá í Dalasýslu. Þar rennur áin síðan spölkorn um gróna bakka uns hún sameinast annarri á en saman mynda árnar svokallaða Sælingsdalstungu en þess má geta að neðsti hluti tungunnar er kallaður Paradísarlaut af heimamönnum. Lækirnir tveir í textanum eru því svo sannarlega til og renna ,niður í fjöru og niður að sjó’.“
– Marteinn Sindri Jónsson
„Fyrir mitt leyti finnst mér setningin ,Heim til míns hjarta, ofar öllum þrám’ svo gullfalleg að ég stend mig oft að því að raula hana þegar ég finn fyrir söknuði til einhvers. Textinn er einfaldur en áhrifamikill þannig maður getur ekki annað en sett allar sínar tilfinningar í lagið.“
– Arna Margrét
Þau Arna Margrét og Marteinn Sindri segjast mjög lukkuleg að vera umkringd frábæru listafólki sem vann með þeim að þessari lokaútkomu. Lagið var tekið upp „live“ til að ná fram sérstakri stemningu. Þess má geta að á næstu vikum er von á jólalaginu Jólapeð úr þeirra smiðju.