Rapparinn Young Thug kemur til Íslands í sumar og heldur tónleika í Laugardalshöllinni föstudaginn 7. júlí en það eru Hr. Örlygur og Kronik sem flytja rapparann til landsins. Upphitunaratriðin verða tilkynnt síðar.
Fyrir tónleika og meðan á þeim stendur verður hægt að tylla sér fyrir utan höllina og njóta matar og drykkjar samkvæmt fréttatilkynningu frá Vísi: „Svokallaðir ,street food’ vagnar verða á svæðinu og sett verður upp sérstakt svæði fyrir tónleikagesti í kringum það. Ekkert aldurstakmark verður á tónleikana en sérstök barsvæði verða opin öllum þeim sem eru komnir á réttan aldur og vilja fá sér einn kaldan með tónleikunum.“
Robbi Kronik kíkti við í útvarpsþáttinn Brennslan í morgun, ásamt Emmsjé Gauta, og ræddi tónleikana nánar:
„Þetta er mjög sérstakur viðburður – ég held að þetta sé fyrsta rapp ,act-ið’ sem kemur hingað til lands á hátindi ferils síns. Hann gaf út þrjár plötur í fyrra og þær fóru allar inn á topp fimm á rapplista Billboard. Svo var hann að tilkynna núna að hann er að fara að túra um Evrópu með Drake sem svo kallaður ,co-headliner’ þannig að þeir taka þrjátíu og tvær borgir saman. Hann er sem sagt ekki ,support act’ heldur er hann settur til jafns við Drake. Þetta er mjög svipað og Kanye og Jay-Z gerðu um árið – hann er alveg kominn á þá stærðargráðu. Í tilkynningunni fyrir þann túr eru þeir sagðir vera tvö stærstu nöfnin í rappinu sem eru að sameinast. Það verður mikill fengur að fá hann og sérstaklega svona á hátindi ferilsins. Þetta verður alvöru ,show.’“
– Róbert Aron Magnússon (Robbi Kronik)
Miðasalan hefst 10. febrúar á tix.is. Notendur Aur-appsins hafa kost á því að versla sér miða sólarhring áður en formleg miðasala hefst. Í boði verða venjulegir miðar og VIP-miðar (miðaverð er 9.900 krónur fyrir venjulegan miða og verðið á VIP miðum verður tilkynnt síðar).
Hér fyrir neðan má sjá myndband við lagið Wyclef Jean eftir Young Thug: