Síðastliðinn 1. júlí birti The New Yorker grein eftir blaðakonuna Doreen St. Felix þar sem tónlist bandaríska rapparans Tierra Whack er til umfjöllunnar.
Nánar: https://www.newyorker.com/cult…
Undir yfirskriftinni Tierra Whack teygir takmörk einna mínútu langra laga („Tierra Whack Stretches the Limits of One-Minute Songs“) fjallar St. Felix um fyrstu plötu Tierra Whack, Whack World. Um ræðir 15 laga hljómplötu þar sem öll lög plötunnar eru einungis ein mínúta á lengd.
Líkt og fram kemur í greininni hefur lengd platna aukist síðastliðin ár á meðan lengd einstakra laga hefur skroppið saman, þ.e.a.s. í samanburði við lengd laga við upphaf 21. aldarinnar. Tölfræðingar og yfirmenn plötufyrirtækja hafa ályktað að þessi þróun sé Silicon Valley að kenna; styttri lög höfða sterkt til þeirra sem eru annars hugar. Í ár varð til dæmis lagið Gucci Gang eftir rapparann Lil Pump (sem er aðeins tvær mínútur og fjórar sekúndur á lengd) stysta lagið til þess að rata inn á vinsældalista Billboard („Hot 100“).
Í greininni segir höfundur að við fyrstu hlustun Whack World sé upplifun hlustandans svipað og að fá hálshnykk („whiplash“): Við erum ekki vön því að (…) viðlagið rúlli ekki þrisvar sinnum í gegn.
En þrátt fyrir ofangreindar tvær aðfinnslur (ef svo mætti að orði komast)—sumsé að styttri lög séu, að einhverju leyti, til marks um ákveðinn athyglisbrest (eða óskýra hugsun) meðal hlustenda í dag; og að það að hlusta á plötuna sé eins og að fá hálshnykk—þá er Whack World, engu að síður, frumleg stílæfing sem vekur forvitni hlustandans:
„Á plötunni aðlagar Tierra Whack sig að skorðum samfélagsmiðla á slunginn og gagnrýninn hátt. „Whack World“ er, að hluta til, einlæg hugleiðing listakonunnar um þann alltumlykjandi þrýsting sem kvenmenn í dag upplifa: pressan að umbreyta líkama sínum til þess að aðlagast ímynd fullkomnunarinnar.“
– Doreen St. Felix (New Yorker)
Sumir vilja kannski meina að Whack World sé tónlist fyrir ungt fólk með athyglisbrest; hvað sem þeirri staðhæfingu líður dregur það ekkert úr gæðunum. Mælum við eindregið með plötunni.