Tónlist
Í gær leit myndbandið við fyrsta lag plötunnar Jeffery eftir rapparann Young Thug dagsins ljós. Lagið ber titilinn Wyclef Jean og má segja að myndbandið sé með eftirminnilegri tónlistarmyndböndum.
Vefsíðan Fader lýsir því sem einskonar „æfingu í því að segja sögu,“ („exercise in storytelling“) þökk sé aðstoðarleikstjóra myndbandsins, Ryan Staake, sem fullyrðir að þrátt fyrir að myndbandið hafi kostað um 100,000 dollara – þá mætti Young Thug sjálfur aldrei í tökur.
Rapparinn er aðeins sjáanlegur í einni senu myndbandsins, en um ræðir atriði sem hann skaut sjálfur. Í senunni borðar Young Thug Cheetos fyrir framan einkaflugvél.
Young Thug hefur ekki átt sjö dagana sæla, en fyrir stuttu gaf héraðsdómari í Atlanta út handtökuskipun á rapparanum sökum þess að bílrúður rapparans voru of dökkleitar og þóttu ekki samræmast lögum. Einnig var rapparinn ávíttur af aðdáendum fyrir að kalla starfsmenn flugfélagsins Air Alaska peð („peasants“).