Auglýsing

Kettlingarnir í Keeping up with the Kattarshians kynntir til sögunnar

Nútíminn kynnir til sögunnar kettlingana fjóra sem dvelja í húsinu fallega í þáttunum Keeping up with the Kattarshians. Hægt er að fylgjast með þeim hér og í Sjónvarpi Símans.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Kattavinafélag Íslands, með fullri vitneskju og samþykki Matvælastofnunar, dýraeftirlitsmanns suðvesturumdæmis og dýralæknis gæludýra og dýravelferðar.

Kettlingarnir Guðni, Stubbur, Bríet og Ronja eru níu vikna. Þau fundust í húsi í verksmiðjuhverfi ásamt mömmu sinni. Þeim var öllum komið í Kattholt þar sem hlúð var að þeim. Eftir að hafa dvalið þar, vaxið og dafnað, fluttu systkinin í húsið þar sem hægt er að fylgjast með þeim.

Þar eiga systkinin fjögur hlýlegt heimili. Í svefnherberginu eiga þau hvert sitt rúmið, þó að þeim finnist reyndar stundum best að kúra saman í einu rúmi; tvö, þrjú eða jafnvel öll saman! Þau geta leikið sér út um allt hús og í garðinum líka og allir fá nóg að borða. Vel er hugsað um kettlingana og mannfólkið lítur reglulega til þeirra með mat og ást og umhyggju meðferðis.

Eitt þeirra hefur þegar eignast framtíðarheimili að verkefninu loknu. 

Guðni

Guðni er félagslyndur fjörkálfur, stríðnispúki og sælkeri. Hann er svart og hvítt fress.

Ef hann er ekki að hlaupa og veltast um gólfið í slagsmálum við systkini sín, þá er hann að athuga hvort það sé eitthvað nýtt og spennandi í matardallinum.

Guðni er alveg eins og aðrir kettlingar, honum finnst gaman að takast á. Guðni á það til að stríða systkinum sínum og þá sérstaklega systrum sínum. Hann vinnur þær oftast í slagsmálum þar sem hann er stærri og þyngri en þær. Guðna þykir mjög vænt um systkini sín og passar vel upp á þau.

Guðni gleymir stað og stund þegar fyllt er á matardallinn. Hann skýst á ógnarhraða að matardallinum og gæðir sér á því sem þar er að finna. Frá því að Guðni flutti í Kattholt og síðar meir í húsið hefur hann borðað vel og er bústinn prakkari.

Stubbur

Stubbur er leiðtoginn í hópnum, ákveðinn og hugaður. Hann er grábröndótt og hvítt fress og með mun styttra skott en systkini sín.

Þegar Stubbur kom í Kattholt átti hann dálítið bágt, það var sár á skottinu hans. Dýralæknirinn veit ekki af hverju skottið hans er svona en það gæti hafa orðið slys í húsinu þar sem fjölskyldan fannst.

Til að byrja með var Stubbur dálítið lítill í sér þegar verið var að hlúa að honum og sárinu hans. Stubbur var þó fljótur að braggast og sárið greri vel. Hann þykir minna á lítinn kanínuunga þegar hann hoppar og skoppar um húsið.

Stubbur er þyngstur og stærstur af systkinum sínum. Hann lætur þau ekki vaða yfir sig, leiðir hópinn og vinnur yfirleitt alltaf í slagsmálum.

Bríet

Bríet er bjartsýn, hlédræg en þó mjög ákveðin. Hún er grábröndótt og hvít læða. Þau Stubbur eru líkust af systkinunum fjórum.

Bríet lætur ekki mikið fyrir sér fara og er rólegust af kettlingunum, ef hægt er að segja að kettlingar séu rólegir. Hún hefur braggast vel frá því að hún kom í Kattholt og er dugleg að borða, leika sér og skoða heiminn.

Bríeti finnst gott að láta strjúka sér en hefur þó ekki alltaf mikla þolinmæði. Stundum smýgur hún eins og elding úr höndum þess sem heldur á henni og er jafnvel komin upp á öxl eða bak á viðkomandi til að hafa betra útsýni.

Þó að Bríet hafi sig lítið frammi gefur hún systkinum sínum alls ekkert eftir þegar þau leika sér. Hún slæst við bræður sína, jafnvel þó að að hún þurfi alltaf að láta í minni pokann fyrir þeim. Hún er bjartsýn og reynir alltaf aftur.

Ronja

Ronja er baráttujaxl og hvers manns hugljúfi. Hún er hvít og grá læða og minnst af systkinunum.

Ronja átti dálítið erfitt uppdráttar til að byrja með. Þegar systkinin komu í Kattholt með mömmu sinni voru þau vigtuð á hverjum degi. Ronja var sú eina sem þyngdist ekki. Einn morguninn var hún síðan orðin veik.

Ákveðið var að fara með Ronju á dýraspítala. Dýrahjúkrunarfræðingur tók hana með sér heim yfir helgi, hjúkraði henni og gaf henni lyf og orkuríkan mat. Þetta gerði gæfumuninn því Ronja fór að þyngjast og hefur vaxið og dafnað síðan.

Þegar Ronja kom aftur til systkina sinna réðst hún á matinn og var duglegust að borða. Ekki nóg með það, hún ýtti systkinum sínum frá matardallinum, ákveðin í að borða nóg. Engar áhyggjur, allir fengu nóg. Ronja heillaði dýrahjúkrunarfræðinginn upp úr skónum og ætlar hún að taka læðuna að sér þegar verkefninu í húsinu lýkur.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing