Sonur minn eignaðist nýjan vin í skólanum haustið sem hann byrjaði í fimmta bekk. Vinurinn hafði upplifað sáran missi sem olli því að aðstæður hans breyttust og alls ekki til batnaðar. Ég átti gott spjall við hann sem ég vona að hafi gefið honum kjark til að biðja um aðstoð. Í þessari frásögn kýs ég að kalla hann Kára.
Kári hafði misst mömmu sína óvænt og það þótti eina leiðin að hann flytti til föður síns, stjúpmóður og tveggja systkina í kjölfarið. Hann þurfti að kveðja gamla heimilið, frábæran stjúpföður og yngri bróður sem honum þótti mjög vænt um. Að auki heimabæinn, skólann og vinina, einnig heittelskaðan köttinn sinn sem hann fékk ekki leyfi til að hafa á nýja heimilinu. Þetta voru gífurlegar breytingar ofan á móðurmissinn. Kári var ekki einu sinni spurður, þetta þótti svo sjálfsagt.
Stöðug tilkynningaskylda
Ég talaði eitt sinn við pabba hans í síma og fannst hann virka góður maður, en var ekki viss um að sama væri hægt að segja um konuna hans, stjúpmóður Kára. Sögur um vondar stjúpur hafa reyndar alltaf pirrað mig, ég er alin sjálf upp af góðri stjúpmóður og er sjálf stjúpa ungrar konu sem mér þykir mjög vænt um.
Kári fékk að gista hjá okkur þrisvar eða fjórum sinnum þennan vetur og mér fannst mjög undarlegt hversu oft hann þurfti að láta konuna vita af sér. Mig grunaði að það lægi ekki umhyggja að baki, heldur stjórnsemi. Hún þurfti að vita hvar drengurinn var, nánast allan tímann sem hann var að heiman. Ég hitti aldrei þessa konu en var samt með slæma tilfinningu fyrir henni.
Ég heyrði í gegnum son minn að konan væri oft mjög pirruð út í Kára, algjörlega út af engu, fannst syni mínum. Hún talaði alltaf reiðilega við hann, sagði aldrei neitt fallegt við dreng sem hafði misst mömmu sína fyrir örfáum mánuðum. Hún var mun blíðari í máli þegar hún talaði við eigin börn.
Yfirleitt minnti ég Kára á að hringja heim þegar hann var hjá okkur og hann var þakklátur fyrir það. Son minn þurfti ég iðulega að minna á skylduverkin svo hann fengi nú vasapeninga, mér fannst það bara eðlilegt, krakkar á þessum aldri gleyma sér oft.
Eitt sinn fékk hann að gista heila helgi hjá okkur og þótt konan væri sennilega fegin að losna við hann, mætti halda að hún vildi ekki að hann skemmti sér of vel. Hann þurfti að hringja við komu eins og vanalega en akkúrat þennan föstudag steingleymdi ég að minna Kára á að hringja heim og láta vita af sér. Strákarnir höfðu drifið sig í heita pottinn sem Kári elskaði og voru þar alveg fram að mat.
Um leið og hann kom inn var eins og hann hefði munað eftir að láta vita af sér og dreif sig í að hringja. Það mátti heyra stjúpu hans hella sér yfir hann en Kári var kurteis við hana eins og vanalega. Nú hafði hún greinilega hótað honum – hann var mjög leiður, baðst afsökunar, sagðist hafa gleymt sér: „Nei, ekki koma og sækja mig, ég skal passa að gera þetta aldrei aftur,“ og loks slapp hann úr símanum.
Mér ofbauð hvernig konan lét við drenginn og gat ekki stillt mig um að tala um það við Kára um kvöldið. Ég bauðst til að hringja í stjúpu hans og segja að það væri mér að kenna að hann hefði ekki hringt, en Kári bað mig um að sleppa því, hún yrði þá enn reiðari og kannski fengi hann aldrei aftur að gista hjá okkur. Mig langaði mikið að reyna að hjálpa þessum óhamingjusama dreng.
„En svo fór hann að tala um hversu erfitt það hefði verið að þurfa að flytja, hann ætti svo góðan stjúpa, svo saknaði hann bróður síns sem hann hitti allt of sjaldan, og hann mætti ekki heldur hafa kisuna sína á heimili pabba síns í Reykjavík.“
Ósanngjarnar kröfur
Það kom mér á óvart hversu opinn og einlægur hann var þegar ég fór að spyrja hann. Ég sagði að ég gæti ekki annað en tekið eftir því hversu illa honum liði stundum yfir öðru en móðurmissinum, og nefndi símtalið sem dæmi. Kári virtist verða hissa, eins og hann héldi að hlutirnir ættu bara að vera svona. En svo fór hann að tala um hversu erfitt það hefði verið að þurfa að flytja, hann ætti svo góðan stjúpa, svo saknaði hann bróður síns sem hann hitti allt of sjaldan, og hann mætti ekki heldur vera með kisuna sína á heimili pabba síns í Reykjavík. Honum væri oft refsað, til dæmis hefði verið tekinn af honum tölvutími í viku af því hann var ekki nógu duglegur að hjálpa til á heimilinu fyrir jólin. Eitthvað sem hann átti að gera af sjálfsdáðum, það var enginn sem minnti hann á, hann átti bara að finna á sér hvað þyrfti að gera. Svo var refsað löngu seinna fyrir eitthvað sem hann gat ekki vitað að hann ætti að gera. Miðað við hvernig ég upplifði þennan ljúfling, hefði hann rokið til að t.d. ryksuga ef hann hefði bara verið beðinn.
Ég hefði getað grátið þegar hann talaði um þetta, sumt sagði hann ekki hreint út, ég þurfti að lesa á milli línanna og svo vissi ég sitt af hverju í gegnum það sem sonur minn sagði mér. Þetta voru ómanneskjulegar kröfur sem gerðar voru til drengs sem hafði orðið fyrir miklum missi. Í símtalinu fyrr um daginn hafði konan í alvöru hótað því að koma og sækja hann fyrst hann vogaði sér að sleppa því að hringja, eins og hann hafði átt að gera.
Kári sagði að sér þætti vænt um pabba sinn og systkini en vildi ekki búa hjá þeim. Hann minntist ekki á stjúpmóður sína. Hann sagðist þrá að fá að flytja til stjúpa síns, bróður og kisu en héldi að hann mætti það ekki. Kannski vildi stjúpi hans ekki fá hann af því að hann væri ekki alvörupabbi hans, bætti hann við. Alls konar erfiðar hugsanir sem barnið þurfti að glíma við, enginn virtist hafa gefið sér tíma til að spjalla við hann og fá að vita hvernig honum liði. Kannski hitti ég á rétta stund og rétta aðferð sem fékk hann til að opna sig.
Hann sagðist hafa talað um vanlíðan sína við pabba sinn en það hefði engu skilað. Ég stakk upp á því að hann segði kennaranum sínum allt af létta, kannski myndi það breyta einhverju. Samt var ég ekki sérlega vongóð, foreldrar hafa svo miklu sterkari rétt en blessuð börnin.
„Kári fékk að gista hjá okkur þrisvar eða fjórum sinnum þennan vetur og mér fannst mjög undarlegt hversu oft hann þurfti að láta konuna vita af sér. Mig grunaði að það lægi ekki umhyggja að baki, heldur stjórnsemi.“
Gleðifréttir
Næstu vikurnar vissi ég ekki hvort hann hefði látið vaða og talað við kennarann. Ekki vildi ég biðja son minn að forvitnast, ég beið bara þolinmóð þótt ég hefði miklar áhyggjur af Kára. Ég hafði svo sem eitt í bakhöndinni, og það var að tilkynna til Barnaverndar að barni liði illa í þeim aðstæðum sem það væri í. En hann bjó ekki við sjáanlega vanrækslu sem gerði þetta erfiðara.
Einn daginn kom sonur minn blaðskellandi heim úr skólanum og sagði að Kári væri fluttur og kominn í nýjan skóla. Hann hefði ekki einu sinni þurft að klára skólann, heldur fengið að hætta þegar bara mánuður var til sumarfrís. Hann væri fluttur á gamla heimilið sitt, til stjúpa, litla bróður og kisu.
Kári hafði líklega farið að mínum ráðum og sagt ljúfa kennaranum alla söguna og sú komið málinu í réttan farveg sem ég veit ekki hver var, sennilega barnavernd því þar eru úrræði.
Stjúpi hans varð mjög glaður að endurheimta strákinn, frétti ég frá kennaranum, enda ríkti víst einstakt samband á milli þeirra tveggja.
Sonur minn talaði stundum við Kára í síma fyrst á eftir og sagði mér að vinur hans væri ekki neinu sambandi við pabba sinn og stjúpu. Frænka mín sem þekkir til sagði mér löngu seinna að þetta hefði farið öfugt ofan í stjúpu Kára sem reiddist mjög yfir vanþakklæti Kára. Hún hefði bókstaflega gert allt fyrir drenginn sem hefði launað henni það svona.
Áður en mamma Kára lést hafði hann heimsótt pabba sinn og fjölskyldu um það bil einu sinni í mánuði. Það fylgdi sögunni að faðir Kára hefði samþykkt að drengurinn fengi að flytja á gamla heimilið eftir að stjúpinn hafði sagt drenginn velkominn.
Vinátta Kára og sonar míns lifði ekki af þessar breytingar, enda staðið stutt og nú hafði talsverð fjarlægð á milli bæst við. Bestu vinir Kára voru í heimabænum hans og ég held að hann hafi viljað, kannski óafvitandi, slíta á allt sem rifjaði upp þessa ömurlegu mánuði, sem innihélt okkur þótt hann hafi alltaf verið glaður og kátur þegar hann gisti hjá okkur.
Ég er alsæl fyrir hönd drengsins og vona að ég hafi átt einhvern þátt í þessum góðu breytingum sem urðu. Við fjölskyldan ætlum í ferðalag í sumar og munum koma við í heimabæ Kára. Mér finnst líklegt að við gerum tilraun til að heilsa upp á hann í leiðinni. Það hafa vissulega liðið nokkur ár en ég er viss um að hann hefði gaman af því að sjá okkur.
Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.