Um áramótin tók gildi ný reglugerð þar sem ýmsar sektir við umferðarlagabrotum eru hækkaðar og refsingar við ölvunarakstri þyngdar til muna. Þá hafa sviptingar ökuréttinda einnig verið lengdar.
Nýtt efsta refsiþrep við ölvunarakstri felur í sér að ef vínandamagn í blóði ökumanns mælist yfir 2,51 prómill varðar það sviptingu ökuréttar í þrjú ár og sex mánuði auk 270.000 króna sektar.
Einnig er í nýju reglugerðinni hærri sekt við akstri gegn rauðu ljósi en sú sekt hækkaði úr 30.000 í 50.000 krónur um áramótin. Auk þess verður sekt við því að vegfarandi sinni ekki skyldu við umferðaróhapp 30 þúsund krónur.
Umferðarlagabrotum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Í afbrotatölfræðiskýrslu lögreglunnar kemur fram að umferðarlagabrot voru rúmlega 78 þúsund á árinu 2018. Mikil fjölgun var á umferðarlagabrotum milli ára en flest umferðarlagabrot á íbúa eru á Norðurlandi vestra og Vesturlandi.
Þetta kom fram á vef Kjarnans.