,,Fjórtán herbergi verða á nýju áfangaheimili fyrir konur sem opnað verður í miðborginni. Þar verður unnið eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði í samstarfi við Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt verður gengið til viðræðna við Rótina um rekstur Konukots, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg
En í dag samþykkti borgarráð tillögu velferðarráðs um opnun nýs áfangaheimilis fyrir konur í miðborg Reykjavíkur.
,,Áfangaheimili er tímabundið húsnæði til að leysa bráðan húsnæðisvanda þeirra sem hafa átt við áfengis- og annan vímuefnavanda að stríða og eru í virkri endurhæfingu eftir meðferð. Markmiðið er að bjóða einstaklingum sem hætt hafa neyslu öruggt heimili, stuðning og aðhald meðan þeir aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Í dag eru níu áfangaheimili í Reykjavík, ýmist rekin af félagasamtökum eða Reykjavíkurborg, þar sem rými er fyrir um það bil 200 einstaklinga,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur einnig fram að í það minnsta 25 konur gætu nýtt sér áfangaheimili í Reykjavík en þar verður unnið eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði með náinni samvinnu við göngudeildarþjónustu Landspítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Áætlað er að kostnaður vegna reksturs áfangaheimilisins verði allt að 25 milljónir króna á ári og þar verður forstöðumaður í dagvinnu og félagsráðgjafi í hálfu starfi.