Auglýsing

Fróðleikur fyrir flensufjölskyldur, nú segja þau að man-flu sé staðreynd

Umgangspestir eru næstum óumflýjanlegar þegar börn er á heimilinu. Þær leggjast af fullum þunga á fjölskyldur á þessum árstíma og foreldrar þurfa að vera reiðubúnir að tækla kvef, hósta, hita, gubb og niðurgang með öllum ráðum – og reyna að halda geðheilsunni á meðan. Reynum eftir bestu getu að njóta samvistanna við sífrandi börnin og formæla þeim ekki þegar við smitumst sjálf!

Almennt gildir …

Foreldrar þekkja börnin sín best. Ef þú hefur áhyggjur eða á tilfinningunni að eitthvað sé að, eða að barn sé að verða lasið er betra að halda því heima þann daginn. Það getur margborgað sig.

Tryggið nægan svefn, slökun og hvíld. Líkaminn þarf tíma til þess að jafna sig. Það flýtir fyrir bata.

Það er ekki hættulegt að fara út þó barn (eða fullorðinn) hafi hita. En það er afar mikilvægt að viðkomandi verði ekki kalt.

Sjá annars síðustu ábendingu um að slaka á. Í alvörunni – fólki batnar hraðar ef það leyfir líkamanum að jafna sig. Og það gildir jafnt fyrir börn og foreldra; það er ekki sniðugt að ana strax af stað eftir veikindi. Þetta er bögg og tekur tíma. Gefið þessu tímann sem þarf.

Virkjaðu vini eða ættingja til þess að græja það sem græja þarf, eða hlaupa í skarðið og sitja yfir pestargemlingum í smá stund. Veikindi geta verið ævintýralega lýjandi fyrir foreldra og það er líka gott fyrir þau veiku að fá tilbreytingu. Það hjálpar skapinu.

Lasnir foreldrar – þið hafið í það minnsta fullkomna afsökun fyrir því að sleppa því að elda. Það er hreint ekki sniðugt að þið sinnið því í ykkar ástandi.

Ef börn eru með hita er mikilvægt að klæða þau ekki of mikið. Ef þau eiga erfitt með svefn er betra að klæða þau minna, gefa þeim mikinn vökva og verkjalyf ef þarf.

Hita fylgir mikið vökvatap. Drekka, drekka, drekka.

Hið yndislega íslenska kvef

Allir þekkja það. Við því er ekkert að gera nema að bíða – það lagast af sjálfu sér en það tekur oft langan tíma. Ýmislegt getur létt einkenni kvefs, s.s. nefsprey með saltvatnslausn og hóstasaft. Kvef smitast með snertingu, s.s. handabandi svo ef þið skynjið/fréttið/finnið að það eru pestir farnar að ganga þá fjölgið handþvottum hjá öllum á heimilinu. Það er t.d. mjög hraðvirkt að nota til þess sótthreinsandi gel sem fæst með handhægri pumpu.

Hálsbólgan hatar edik og hunang. Góð heimamixtúra er að blanda lífrænu eplaediki og hunangi út í vatn og skella í sig. Ef þér finnst bragðið óþverri þá heldurðu bara fyrir nefið á meðan. Ef börn eru með hósta er gott að þau hafi eitthvað hlýtt um hálsinn, líka á nóttunni.

Uppúr og niðrúr pestir

Óskemmtilegir gestir, oftast vegna veirusýkinga en en fjölmargir vírusar geta valdið ælu- og niðurgangspestum. Börn fá slíkar pestar frekar en fullorðnir en þær eru oft mjög smitandi og því leggst oft öll fjölskyldan. Það líður oft hálfur til þrír dagar frá smiti þar til einkenni koma fram og svo gengur þetta yfir á 3-7 dögum. Passa þarf upp á vökva og sölt með því að drekka vel og borða léttan mat. Drykkir eins og Gatorade og Poweraid geta bætt upp vökvatap og þá má þynna út til helminga, betra er að forðast mjólkurvörur, grófmeti og brasaðan mat.
Krakkar geta haft niðurgang áfram þó sýking sé gengin yfir.

Hin hvimleiða eyrnabólga

Miðeyrnabólga kemur upp hjá ungum börnum m.a. vegna vanþroska í ónæmiskerfinu. Mjög mörg börn fá hana á fyrsta aldursárinu en hún gengur yfirleitt yfir á 2-3 dögum. En hafi barn einu sinni fengið eyrnabólgu er aukin hætta á að hún snúi aftur. Þetta er afbrigði af rúllettu. Eyrnabólgu fylgir sársauki svo verkjastilling er mikilvæg fyrir smáfólkið.

Karlaflensa

Já, og karla-flensa (e. man flu) er til. Eða það segja a.m.k. nýjustu fréttir. Karlar eru víst viðkvæmari fyrir kvefi en konur því kvenhormónið estrógen ku veikja flensuvírusa. Talandi um sterkara kynið og allt það.

 

ATH: Fróðleikur sem þessi kemur aldrei í staðinn fyrir beinar ráðleggingar lækna og heilbrigðisstarfsfólks.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing