Upphaflega stóð til að fara í fullar afléttingar á samfélagslegum takmörkunum vegna Covid-19 hér á landi þann 14. mars næstkomandi. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði í samtali við mbl.is að ráðist verði í þessar afléttingar í vikunni eða í síðasta lagi á föstudag.
„Við erum að fara í samtal með sóttvarnalækni, embætti landlæknis, almannavörnum og heilbrigðisstofnunum og hvernig við horfum núna inn í framhaldið.
Við sjáum fyrir okkur að aflétta hér að fullu bæði innanlands og á landamærum,“ sagði Willum í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund nú í morgun.