Stefán Eiríksson borgarritari Reykjavíkurborgar og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur verið ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins til næstu fimm ára. Greint var frá þessu á mbl.is
Stefán tekur til starfa 1. mars næstkomandi. Hann er menntaður lögfræðingur og hefur þess að auki sótt ýmis námskeið tengd stjórnun.
Hann er 49 ára gamall og starfaði sem blaðamaður bæði á Tímanum og Morgunblaðinu samhliða laganámi á árunum 1991-1996, en starfaði síðan við lögfræði- og stjórnunarstörf hjá hinu opinbera næsta áratug eða þar til hann var skipaður lögreglustjóri árið 2006.
Árið 2014 tók hann við starfi sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, áður en hann var svo ráðinn borgarritari árið 2016.
Fjörutíu og einn sótti um stöðuna, en listi umsækjenda hefur ekki verið gerður opinber og ekki stendur til að opinbera hann.