Ástrós Rut Sigurðardóttir, eiginkona Bjarka Más Sigvaldasonar sem greindist með krabbamein fyrir fimm árum, segir að þau hjónin hafi lent í því að hafa ekki efni á að leysa út lyfin hans í lok mánaðar. Þau hafi þá stundum fengið nokkur töflur að láni í apótekinu. Þetta kemur fram í viðtali mbl.is við Ástrósu.
Myndband: „Þetta gjörsamlega brýtur hjartað í mér að sjá allt sem hann er búinn að borga“
Myndband sem Ástrós deildi á Facebook í gær hefur vakið gríðarlega athygli. Þar gagnrýnir hún stjórnvöld harðlega fyrir greiðslur sem þau hafa þurft að inna af hendi frá því að Bjarki veiktist. Búið er að horfa á myndbandið 274 þúsund sinnum á tæpum sólarhring og fleiri en átta þúsund hafa deilt því. Sjáðu myndbandið neðst í fréttinni.
Ástrós segist hafa öruggar heimildir fyrir því að fólk sem hafi greinst með krabbamein hafi hafnað meðferð þar sem það hafði ekki efni á að greiða fyrir hana.
„Það er virkilega sorglegt. Við höfum lent í því sjálf, ég og maðurinn minn, til dæmis á föstudegi við lok mánaðar, að við höfum ekki haft efni á lyfjunum hans. Þá er ekki hægt að ná í lækni og við höfum stundum fengið að láni í apótekinu, nokkrar töflur til að eiga yfir helgina. Þar hefur víðast hvar verið komið ofboðslega vel fram við okkur, enda held ég að þau geti rétt ímyndað sér þá tilfinningu að eiga ekki efni á lyfjunum,“ segir Ástrós í samtali við mbl.is.