Um leið og búið var að draga í riðla fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta í Rússlandi í sumar hóf Icelandair að selja beint flug til Moskvu, Volgograd og Rostov. Óhætt er að segja að áhuginn hafi verið mikill því flugið á leik Íslands og Argentínu í Moskvu seldist upp á klukkutíma.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, greinir frá þessu í samtali við mbl.is en hann segir að áhuginn á ferðum til Moskvu hafi verið mestur. „Við áttuðum okkur á því að þegar búið var að draga í riðla að flestir vildu sjá fyrsta leikinn, bæði er það staðsetningin og mótherjinn,“ segir Guðjón.
Strax eftir helgi verður kannað hvort boðið verði upp á fleiri ferðir til Moskvu, að sögn Guðjóns. Fram kemur í frétt mbl.is að Wow air hyggist hefja sölu á flugi til borganna þriggja eftir helgi.
Leikurinn gegn Argentínu fer fram 16. júní í Moskvu. Ísland mætir svo Nígeríu í 22. júní í Volgograd og Króatíu 26. júní í Rostov.