Engar auglýsingar eru á Facebook-síðum í Tælandi vegna árslangrar þjóðarsorgar sem lýst var yfir í landinu vegna andláts konungsins Bhumibol Adulyadej.
Frá þessu var greint í færslu á Facebook en þar segir að slökkt hafi verið á öllum auglýsingum í gær, 13. október, vegna þjóðarsorgarinnar. Þar kemur einnig fram að starfsfólk Facebook viti ekki hversu lengi sorgartímabilið muni standa yfir.
Tekið er fram að auglýsingar muni halda áfram að birtast á hefðbundinn hátt í öðrum löndum. Þá munu kaupendur auglýsinga í Tælandi fá auglýsingar sínar birtar í öðrum löndum en í Tælandi.
Flaggað verður í hálfa stöng við allar byggingar ríkisins í einn mánuð frá og með deginum í dag. Þá þurfa allir embættismenn landsins að klæðast svörtum fatnaði við störf sín í eitt ár.
Konungurinn settist á valdastól 18 ára gamall og var 88 þegar hann lést. Bhumibol hafði ríkt lengur en nokkur núlifandi konungur í heiminum.Sonur hans, sem er 64 ára að aldri, Maha Vajiralongkorn, verður næsti konungur landsins.