Björgunarsveitarmenn leita í dag á svæði við Selvogsvita á Reykjanesi, nálægt staðnum þar sem lík Birnu Brjánsdóttur fannst fyrir hálfum mánuði. Þeir fylgja eftir vísbendingu sem lögreglu barst.
Vísir greinir frá því að vísbendingin hafi komið frá almennum borgara um helgina.
Leitað verður á svæðinu við Vogsósa, vestan við Selvogsvitann, meðal annars í nágrenni affallsins úr Hlíðarvatni. Björgunarsveitarmenn af Suðurlandi og Suðurnesjunum taka þátt í leitinni. Leit hefst kl. 13 og verður leitað fram í myrkur ef þörf er á.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að björgunarsveitirnar séu að aðstoða lögreglu við að fylgja eftir vísbendingu en hann vill ekki fara nánar út í hver vísbendingin er.
„Við ætlum að kanna það hvort það finnist þarna hlutir sem gætu tengst málinu,“ segir Grímur.