Unnsteini Hermannssyni bónda á Leiðólfsstöðum í Dalabyggð brá í brún þegar hann var við slátt á bænum Svarfhóli í Laxárdal um klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags. Svo kalt var um nóttina að það frysti en í myndbandi sem Unnsteinn birti á Snapchat-reikningi sínum sést hann brjóta klaka af sláttuvélinni sinni. Greint er frá þessu á vefnum Búðardalur.is.
Gærdagurinn var einn besti og hlýjasti dagur sumarsins í Dölunum að því er kemur fram á vefsíðunni en hitinn fór í um það bil 15 gráður í gær. Myndbandið sýnir því þann mikla mun sem getur orðið á hitastigi á einum sólarhring.
Samkvæmt frétt Mbl er eðlilegt að munur sé á hita dags og nætur en óvenjulegt sé að það frysti á nóttinni á þessum árstíma. Það geti þó gert þegar þurrt loft og heiður himinn koma saman.
„Á maður bara að trúa þessu? Þetta er frost!“ heyrist í Unnsteini í myndbandinu sem hægt er að skoða hér
Þeir sem hafa áhuga á að fylgja Unnsteini Hermannssyni á Snapchat geta fundið hann undir notendanafninu: steinileidolf