Nærri helmingur barna í tíunda bekk grunnskóla á Íslandi sem nota rafrettur hafa aldrei reykt hefðbundnar sígarettur. Rafrettunotkun hefur aukist hjá börnum yngri en 18 ára í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarraðarinnar Ungt fólk sem unnin var af rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknum og greiningu.
Rafrettur verða flokkaðar eins og tóbak ef nýtt frumvarp um breytingar á lögum um tóbaksvarnir nær fram að ganga. Bannað verður að selja börnum yngri en 18 ára rafrettur og verða settar reglur varðandi heimildir til sölu, markaðssetningar og neyslu á rafretta.
Rannsóknin sem vitnað er í hér fyrir ofan var unnin í fyrra. Í ljós kom að 26,2 prósent tíundu bekkinga á Íslandi hafa notað rafrettu einu sinni eða oftar um ævina. Úr samskonar rannsókn frá árinu áður höfðu um 17,8 prósent notað rafrettu. 46 prósent drengja undir átján ára í framhaldsskólum á Íslandi hafa notað rafrettu einu sinni eða oftar og 40 prósent stúlkna.
Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis, segir í samtali við Nútímann að tölurnar séu ástæðan fyrir því að skólasamfélög hafa óskað eftir skýrum lagaramma um rafrettur.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á mánudaginn að með frumvarpinu sé verið að takmarka aðgengi fólks að tæki sem geti hjálpað því að hætta að reykja.
Viðar vill meina að frumvarpið hamli ekki aðgengi fólks að rafrettum eða vökva í þær. „Ég tel að lögin búi til ramma utan um gæði og eftirlit. Þau eru ekki sett til þess að leggja stein í götu fólks sem vill nota rafretturnar til þess að hætta að reykja,“ segir hann.
„Með þessum ramma sem er settur fram í frumvarpinu getur fólk orðið sér út um rafrettu og vökva sem þú veist hvað er í og er gæðavottað. Frumvarpið ætti því ekki að vera hamlandi fyrir neinn vilji hann kaupa rafrettur, ef hann er eldri en átján ára.“