Auglýsing

Bríet, Guðni og Stubbur leita að nýju heimili, flytja úr fallega húsinu í lok vikunnar

Systkinin Bríet, Guðni, Ronja og Stubbur eru smá saman að vaxa úr grasi. Þau eru orðin nógu gömul til að flytja að heiman, fara út í þennan stóra heim og eignast framtíðarheimili. Okkur finnst þau kannski ekki stór, sérstaklega þegar við sjáum Ronju sofa í pínulitla baðkarinu og Bríeti og Stubb kúra saman í efri koju.

Hægt er að fylgjast með kettlingunum hér: http://nutiminn.is/kattarshians/ og á rás 0 í Sjónvarpi Símans.

Mörg þúsund manns hafa fylgst með þeim vaxa og dafna í fallega húsinu í Keeping Up With the Kattarshians. Við sjáum það ekki aðeins á aðsóknartölunum heldur höfum við fengið ótal snöpp og myndir þar sem kettir jafnt sem mannfólkið sjást njóta þess að horfa á kettlingana.

Margir virðast ekki geta sleppt takinu af þeim á daginn og hafa því krúttlegasta raunveruleikaþátt í heimi á einum skjá og vinnuna á öðrum.

Systkinin eiga ekki bara aðdáendur á Íslandi. Þau hafa ratað í fjölmiðla víða um heim á síðustu dögum og í útlöndum gildir alveg það sama og hér, fólki hlýnar um hjartarætur við að fylgjast með kettlingum leika sér, sofa eða borða.

Í lok vikunnar gerum við hlé á útsendingu Keeping Up With the Kattarshians þegar Bríet, Guðni, Ronja og Stubbur flytja út. Engar áhyggjur, við eigum von nýjum íbúum! Við hlökkum til að kynna ykkur fyrir fimm litlum kettlingum, systkinum sem bíða spennt eftir því flytja í húsið fallega.

Fjölmargir hafa haft samband við Kattholt og óskað eftir að fá að taka eitt af systkinunum að sér. Áður en sýningar á þættinum hófust hafði verið ákveðið að Ronja fengi heimili hjá dýrahjúkrunarfræðingnum sem sinnti henni þegar hún veiktist og hætti að borða. Hinum þremur, Bríeti, Guðna og Stubbi hefur ekki verið úthlutað heimili en ákveðið var að bíða með það þar til þeirra hlutverki í þættinum væri að ljúka.

Nú geta þau sem hafa áhuga á að taka eitt þeirra að sér haft samband við Kattholt í síma 567-2909 og fengið nánari upplýsingar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing