Björgunarsveitir munu ekki leitað að Arturi Jarmoszko, sem saknað hefur verið í tæplega þrjár vikur, nema vísbending um hvarf hans berist til lögreglu.
Fleiri en 80 björgunarsveitarmenn leituðu að Arturi í gær meðfram strandlengjunni frá Gróttu að Nauthólsvík við Kópavogshöfn og Álftanes. Hugsanlega verður leitað með drónum í dag. Þetta kemur fram á mbl.is.
Lögregla mun halda áfram að rannsaka málið og reyna að upplýsinga hvað varð um hann. Síðast er vitað um ferðir hans aðfaranótt 1. mars en þá sést til hans í öryggismyndavélum ganga eftir Suðurgötu í átt að Háskóla Íslands.
Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.