Í lok síðasta árs, rétt fyrir jólin, fannst falleg ársgömul læða á vergangi í Reykjavík. Hún er orðin unglingur, kynþroska og ekki kettlingur lengur. Læðan átti ekkert heimili og því var ákveðið að fara með hana í Kattholt þar sem hún fékk skjól og umönnun.
Í ljós kom að læðan unga var kettlingafull og átti von á fimm kettlingum á næstunni. Starfsfólk Kattholts óskaði eftir fósturheimili fyrir hana þar sem hún gæti eignast börnin og alið þau upp í ró og næði fyrstu vikur ævi þeirra.
Sjá einnig: Kettlingurinn Stubbur meiddi sig og þurfti að yfirgefa húsið, aðdáendur um allan heim senda batakveðjur
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Kona, sem hafði aldrei áður sinnt þessu hlutverki, bauðst til að taka læðuna í fóstur. Kettlingarnir komu heiminn, allt gekk vel og dvaldi fjölskyldan í góðu yfirlæti á fósturheimilinu í átta vikur.
Þegar kettlingarnir voru orðnir nokkuð stálpaðir fékk læðan, mamma þeirra, leið á uppeldinu og fór að ýta þeim frá sér. Þetta er alls ekki óvenjulegt fyrir læður og hafa kettlingarnir fengið nóg af ást og umhyggju, bæði frá fósturmömmu sinni og starfsfólki Kattholts eftir að þeir fluttu þangað með móður sinni í síðustu viku.
Kettlingarnir fimm eru næstu stjörnur krúttlegasta raunveruleikaþátts í heimi, Keeping Up With the Kattarshians en mamma þeirra mun dvelja áfram í Kattholti þangað til að hún fær heimili.
Hér er hægt að fylgjast með þættinum
Keeping Up With The Kattarshians er framleitt af Skoti og Sagafilm. Verkefnið er unnið í samvinnu við Kattavinafélag Íslands, með fullri vitneskju og samþykki Matvælastofnunar, dýraeftirlitsmanns suðvesturumdæmis og dýralæknis gæludýra og dýravelferðar.
Hekla og Katla
Fyrst kynnum við til sögunnar tvíeykið læðurnar Heklu og Kötlu. Þær eru báðar svartar eins og aska og hafa verið kallaðar „tvíburarnir“ fyrstu vikur ævi sinnar.
Nútíminn á dálítið erfitt með að þekkja þær í sundur og gerum við ráð fyrir því að áhorfendur Keeping Up With the Kattarshians eigi eftir að lenda í sömu vandræðum. Við getum þó gefið eina vísbendingu. Hekla er með nokkur hvít hár á bringunni en Katla er alveg svört.
Systurnar eru góðar vinkonur og njóta þess að verja tíma saman. Þær kúra, elta hvora aðra og klifra í klifurstaurnum. Þeim finnst líka mjög gaman að leika við systkini sín.
Þegar við völdum nöfn Kötlu og Heklu varð okkur hugsað til eldfjallanna tveggja sem hafa af og til látið á sér kræla í gegnum tíðina og svörtu öskunnar sem þau spúa frá sér. Eldstöðin Katla er undir Mýrdalsjökli og gaus síðast árið 1918. Eldstöðin Hekla er í Rangárvallasýslu og gaus síðast árið 2000. Bæði eldfjöllin eru á Suðurlandi.
Vigdís
Læðan Vigdís er yrjótt; brún, grá og hvít. Hún er minnst af systkinunum fimm og var síðust til að læra að gera þarfir sínar í kassa og borða mat. Vigdís hélt ótrauð áfram og hefur nú náð sömu færni í þessum málum og hinir kettlingarnir.
Vigdís er hugrökk og ákveðin. Hún hefur sótt í sig veðrið og gefur hinum kettlingunum ekkert eftir. Þó að verkefnið virðist stórt og erfitt úrlausnar lætur hún það ekki stoppa sig í að ná markmiði sínu. Ef Vigdís þarf að stökkva niður á gólf úr nokkurri hæð til að leika við systkini sín hikar hún kannski í smá stund en lætur sig síðan flakka.
Okkur fannst nafn Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, tilvalið fyrir yrjótta kettlinginn. Vigdís var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja.
Bubbi
Bubbi er svart og hvítt fress. Hann er hvítur á öllum fjórum loppunum og því er eins og hann sé alltaf klæddur í sokka.
Bubbi er mikill fjörkálfur. Þegar færi gefst hleypur hann eins og elding um gólfið og vill helst ekki vera kyrr. Hann stekkur óhikað upp á kassa og fylgja systkinin á eftir, þar að segja ef þau geta og þora.
Bubbi heitir í höfuðið á hinum eina sanna Bubba Mortens.
Þór
Þór, hitt fressið, er gulbröndóttur. Hann og bróðir hans voru fyrstir af systkinunum til að læra að gera þarfir sínar í kassa og borða mat.
Þór er ósköp ljúfur og þykir gott að láta halda á sér og knúsa sig. Þó að hann hafi verið fljótur að þroskast og læra getur hann verið dálítill kjáni. Þegar hann sér spennandi blautmat í matardallinum á hann það til að éta of mikið, verða flökurt og æla. Þór er afar þrifinn og elskar baðkarið í fallega húsinu.
Þór fær nafn sitt frá þrumuguð norrænnar goðafræði. Hann var sterkastur allra ása og sagður verndari ása og manna. Þór er oft lýst sem sterklegum og rauðskeggjuðum með stingandi augnaráð. Kettlingurinn Þór er vissulega með rauðleitan/appelsínugulan blæ á feldinum en hann er með ósköp vinalegt augnaráð.
Bragi Valgeirsson, sem hannaði húsið fallega, tók þessar krúttlegu myndir fyrir okkur.
Margir af köttunum sem koma í Kattholt eru týndir heimiliskettir, flækingskettir og læður með kettlinga. Þú getur tekið þátt í þessu starfinu með því að gerast félagi í Kattavinafélagi Íslands. Árgjaldið er kr. 3000. Hægt að skrá sig á kattholt.is
Sjúkrasjóðurinn Nótt var stofnaður árið 2006 af Kattavinafélagi Íslands. Sjúkrasjóðurinn er notaður til að kosta læknisaðgerðir og hjúkrun á slösuðum kisum sem enginn vill kannast við.
Það má styrkja sjóðinn með því að leggja inn á reikning:
Nr. 0113-05-065452
Kt. 550378-0199