Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, og María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri sjónvarpstöðvarinnar N4 hafa í dag gagnrýnt stöðu RÚV á auglýsingamarkaði í dag.
Sigmundur Ernir segir í viðtali í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun að að litlir einkareknir fjölmiðlar sem reiði sig á auglýsingatekjur berjist í bökkum vegna framgöngu RÚV í kringum HM í Rússlandi. Hann segir að stjórnmálafólk hafi ekki hugrekki til að taka á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði.
Í viðtali við Morgunblaðið segir hann að Hringbraut hafi ekki átt séns gegn þeim tilboðum sem RÚV lét rigna yfir markaðinn. „Auglýsingadeild sjónvarpsins fer fram af miklu offorsi, með þeim afleiðingum að litlar sjónvarpsstöðvar sem hafa minna áhorf eiga enga möguleika.”
Þar er einnig rætt við Maríu Björk sem segir að samkeppnin sé ofsalega ójöfn. „Það er bara þurrð á þessum markaði, þeir ryksuguðu þetta upp og voru klókir. Þetta er ofsalega ójöfn samkeppni,“ segir María Björk við Morgunblaðið. Þá segist hún hafa fengið svör frá fyrirtækjum að allt þeirra auglýsingafé hafi farið í HM á RÚV.
Í frétt Vísis um málið segir að í afriti af kynningarefni auglýsingadeildar RÚV sé auglýsendum boðið að kaupa auglýsingapakka upp á margar milljónir króna þar sem tvinnað er saman auglýsingum fyrir leiki á HM við almennar auglýsingar út árið. Mörg stór fyrirtæki eyði því öllu sínu auglýsingafé í RÚV.
Þar segir að í ársreikningi RÚV ohf. fyrir árið 2017 hafi RÚV fengið 4,1 milljarð króna í beinu framlagi frá ríkinu og 2,3 milljarða í auglýsingatekjur.
Sigmundur Ernir segir við Vísi að hann vilji ekki halla neitt á hlutverk RÚV og að stofnunin framleiði mjög gott efni en að þegar komi að kostun og fjármögnun þá geti ríkið ekki farið harðast fram í auglýsingasölu eins og í þeim HM-pökkum sem RÚV eru að bjóða.