Auglýsing

Framtíð trúfélags Zúista í lausu lofti, óvíst hvort takist að endurgreiða sóknargjöldin

Óvíst er hvort trúfélag Zúista fái félagsgjöld áranna 2015 og 2016 greidd. Það er því óvíst hvort þau sem skráðu sig í félagið fái sóknargjöldin endurgreidd. Framtíð félagsins er í lausu lofti eftir að hafa farið fram og til baka í kerfinu síðustu mánuði.

Enginn er skráður sem forstöðumaður trúfélags Zúista á Íslandi eftir að skráning Ísaks Andra Ólafssonar var felld úr gildi 12. janúar síðastliðinn. Ágúst Arnar Ágústsson krafðist þess að vera skráður forstöðumaður en kröfu hans var vísað frá.

Félagið hét því árið 2015 að endurgreiða sóknargjöld til meðlima og varð í kjölfarið eitt stærsta trúfélag landsins. Í dag eru skráðir meðlimir 3.087 talsins, samkvæmt vef Hagstofunnar.

Fyrrverandi og núverandi forstöðumenn trúfélags Zúista hafa deilt um hver eigi rétt á rúmlega 33 milljóna króna sóknargjöldum félagsins. Ríkið var hins vegar sýknað af kröfu um að greiða sóknargjöldin og þarf því ekki að greiða krónu.

Þetta er flókið mál, förum aðeins yfir það

  • Trúfélag Zúista fékk formlega skráningu árið 2013. Rekstrarfélag var stofnað og árið 2014 voru skráðir meðlimir í trúfélagið þrír. Samkvæmt Fjársýslu ríkisins fékk félagið greidd sóknargjöld upp 27 þúsund krónur frá ríkissjóði árið 2014.
  • Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir voru í forsvari fyrir trúfélagið. Í dag eru þeir grunaðir um fjármunabrot og Fréttablaðið greinir frá því að þeir hafi verið til rannsóknar héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara.
  • Árið 2014 tók í gildi reglugerð um að það þurfi að lágmarki 25 meðlimi svo heimilt sé að skrá trúfélag eða lífskoðunarfélag.
  • Í apríl í fyrra skoraði sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á þá sem telja sig veita trúfélagi Zúista forstöðu eða sitja í stjórn þess að gefa sig fram. Þar sem meðlimirnir voru aðeins þrír stóð til að leggja félagið niður en enginn hafði svarað kalli sýslumanns þegar Vísir greindi frá málinu viku eftir að áskorunin var birt í Lögbirtingablaðinu.
  • Í nóvember árið 2015 kom svo í ljós að núverandi forsvarsmenn höfðu svarað kalli sýslumannsins og tekið yfir trúfélagið. Þeir útveguðu félaginu 40 nýja meðlimi og í viðtali á Eyjunni sagði stjórnarmaðurinn Snæbjörn Guðmundsson upprunalega stofnendur hafa skorið á öll tengsl við félagið.
  • Ný stjórn hét því að endurgreiða sóknargjöld til meðlima og í kjölfarið urðu Zúistar eitt stærsta trúfélag landsins.
  • Í kjölfarið sneru bræðurnir Ágúst og Einar aftur. Heimildir Vísi herma að þeir telji sig enn vera í forsvari fyrir rekstrarfélag Zúista. Þeir höfðuðu mál á hendur Ríkissjóði Íslands til að fá greidd sóknargjöld til félagsins, sem núverandi forvarsmenn vilja endurgreiða meðlimum. Þeir töpuðu málinu.

Í dag er staðan þannig að þau sem ætluðu að endurgreiða sóknargjöldin til meðlima Zúista vita ekki hvort þau eigi enn sæti í stjórn trúfélagsins.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að innanríkisráðuneytið telji að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar sýslumaður tók ákvörðun um að skrá Ísak Andra sem forstöðumann. Ekki hafi verið leitað upplýsinga hjá skráðum stjórnarmönnum félagsins áður en sýslumaður tók ákvörðun um að birta auglýsingu eftir nýjum forstöðumanni í Lögbirtingablaðinu.

Sem sagt

Óvíst er hvort trúfélag Zúista fái félagsgjöld áranna 2015 og 2016 greidd. Það er því ekki víst að þau sem skráðu sig í félagið fái sóknargjöldin endurgreidd. Samkvæmt dómi héraðsdóms er meira að segja óvíst hvort félagið sé trúfélag eða ekki.

En hópurinn sem lofaði að endurgreiða sóknargjöldin hefur ekki gefist upp.

Snæbjörn Guðmundsson, núverandi eða fyrrverandi stjórnarmaður trúfélagsins Zúista, segir í samtali við Nútímann að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvað gert verður við félagið. Ákvörðunin sé í höndum sýslumannsins á Norðurlandi eystra.

„Sýslumaður þarf aftur að taka ákvörðun um hvað verður um félagið, hvern ber að skipa sem forstöðumann. Þetta er enn í lausu lofti, hvað verður um félagið,“ segir Snæbjörn. Hann segist heldur ekki vita hvort sóknargjöldin verði greidd út til félagsmanna.

Sex manns skipa, eða öllu heldur skipuðu, stjórn trúfélagsins. Það eru þau Ísak Andri Ólafsson, Arnór Bjarki Svarfdal, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Holger Páll Sæmundsson, Snæbjörn Guðmundsson og Sveinn Þórhallsson. Snæbjörn segir að eitthvert þeirra muni sækjast eftir því að verða forstöðumaður félagsins.

Hann segir stjórnina ekki vera farna frá borðinu, málið sé aðeins í biðstöðu. Hann segir að misskilningurinn, sem varð til þess að fella þurfti niður ákvörðun sýslumanns um að skrá Ísak Andra sem forstöðumann félagsins, komi til vegna óljósra laga um trúfélög.

Hópurinn er með lögfræðing sem fylgir málinu eftir. „Við pössum upp á okkar hagsmuni og alla þá sem skráðu sig í félagið. Við erum ekki hætt við, eða búin að gefa það upp á bátinn,“ segir Snæbjörn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing