Eiturlyfin MDMA og amfetamín fundust í þvagprufu sem gerð var á Robert Spencer. Hann hélt fyrirlestur í Reykjavík fimmtudagskvöldið 11. maí og telur að ungur, vinstrisinnaður maður hafi laumað þessu út í drykk hans á veitingastað seinna um kvöldið.
Sjá einnig: Lögregla rannsakar hvort eitrað hafi verið fyrir Robert Spencer á veitingastað í Reykjavík
Spencer sendi DV afrit af læknaskýrslu en þar kemur fram að lyfin hafi fundist í þvaginu en ekki sé um alvarlega eitrun að ræða. Þar segir einnig að einkenni Spencers hafi svipað til kvíðakasts en sjálfur sagðist hann í samtali við lækni hafa verið undir miklu álagi að undanförnu. Ráðleggur læknir honum að reyna að forðast álag á næstunni ef mögulegt sé.
Guðmundur Pétur Guðmundsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í samtali við Nútímann í morgun að málið væri til rannsóknar. Málið er á frumstigi og aflar lögregla nú gagna. Meðal annars hefur verið óskað eftir myndbandsupptöku frá veitingastaðnum. Sem stendur er enginn með réttarstöðu grunaðs manns. Aðspurður vill Guðmundur ekki segja frá því um hvaða veitingastað er að ræða.