Svo virðist sem H&M hafi búið til fullt af þungarokkhljómsveitum til að selja bolina þeirra. Ekki nóg með það, þá virðist sænski fatarisinn hafa tekið upp tónlist og skrifað sögu gervihljómsveitanna ásamt því að senda út tilkynningar um tilvist þeirra á fréttasíður sem fjalla um þungarokk.
Furðulegt mál. Leyfið okkur að útskýra.
Í febrúar bárust fréttir af því að H&M væri að byrja að selja boli með nöfnum þekktra þungarokkhljómsveita á borð við Metallica, Slayer og Guns N’ Roses. Inni á milli mátti finna varning merktan gervihljómsveitum. Eins og vefurinn Metal Sucks bendir á þá eru fullt af hljómsveitum sem heita Mortus en engin sem skreytir bolina sína svona:
Svo virðist sem H&M vilji að fólk trúi að gervihljómsveitirnar séu til.
Á dögunum var send út fréttatilkynning frá manni sem kallaði sig Ville Huopakangas. Svo virðist sem hann sé ekki heldur til. Hann sagðist starfa fyrir sænska jaðarkynningarskrifstofu sem kallar sig Strong Scene Productions.
Samstarf við H&M er kynnt í tilkynningunni og ýmsar hljómsveitir kynntar til sögunnar sem virðast ekki vera til í alvöru. Hljómsveitir á borð við hina frönsku Lany, mexíkósku Mortus, bandarísku Mystic Triangle og Grey frá Þýskalandi.
Allt bendir til þess að um einhvers konar markaðsherferð sé að ræða. Vefurinn Metal Sucks bendir á að bæði Youtube og Facebook-síður Strong Scene Productions séu vikugamlar og að furðulegir reikningar á Reddit séu nýttir til að fullyrða að hljómsveitirnar séu til í alvöru.
Til að fara alla leið með þetta hefur fatarisinn látið hanna gerviplötuumslög fyrir gervihljómsveitirnar:
Og taka myndir af „hljómsveitarmeðlimum“:
Ekki nóg með það, þá hafa verið tekin upp lög með gervihljómsveitunum. Öll bera þau hræðilega/sprenghlægilega titla á borð við Sign of the Antichris, Hellish Massacre, Holocaust Tomb og auðvitað Vaginal’s Juice Dripping Into Cadaverous.
Lögin eru látin hljóma eins og þau séu gefin út af svakalegum jaðarhljómsveitum, hlustið bara á brot úr lögunum:
Til að flækja málið enn frekar hefur Strone Scene Productions sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að fyrirtækið sé raunverulegt og að tilgangur þess sé listrænn. Eitthvað sem enginn trúir.