Bragi Páll Sigurðsson, fyrrverandi blaðamaður á Stundinni, hefur viðurkennt að hafa notað texta í heilu lagi úr fréttaskýringu Eyjunnar og frétt Vísis í eigin fréttaskýringu sem birtist í Stundinni í fyrra. Bragi hefur beðist afsökunar og greitt 12 þúsund krónur til Kvennaathvarfsins, að beiðni höfundar annars textans sem hann gerði að sínum.
Fréttaskýring Braga fjallaði um aðgengi fjölskyldu Bjarna Benediktssonar að fjármunum ríkisins. Hún hefur nú verið uppfærð með vísun í Eyjuna. Bragi afritaði texta úr frétt Fréttablaðsins eftir Svein Arnarsson frá 2015 og úr fréttaskýringu Eyjunnar eftir Frey Rögnvaldsson frá árinu 2015.
Hér má sjá dæmi um notkun á textanum
Freyr benti á málið á Facebook-síðu sinni í dag. „Hvers konar djöfulsins vinnubrögð eru þetta?“ spurði hann og leitaði svara hjá ritstjórn Stundarinnar og formanni blaðamannafélags Íslands.
Bragi, sem hefur látið af störfum sem blaðamaður á Stundinni, brást við í athugasemdum undir færslu Freys, viðurkenndi mistök sín og baðst afsökunar. „Þessi grein var hliðarefni við lengri umfjöllun sem ég vann í flýti, rétt fyrir prentskil og tókst ekki betur til en þetta,“ segir hann í athugasemd.
Þetta er algjört klúður, við munum uppfæra fréttina, geta heimilda og lagfæra. Ef þú hefur hugmyndir um hvernig við getum bætt fyrir brotið þá munum við verða við því.
Svo fór að Freyr bað um 12 þúsund krónur í bætur sem hann óskaði eftir að Bragi myndi leggja inn á annað hvort Sjálfstæðisflokkinn eða Kvennaathvarfið. Bragi lagði peninginn inn á Kvennaathvarfið og birti skjáskot úr einkabanka sínum því til staðfestingar.