Auglýsing

„Gamli skólinn“ fær á baukinn í pistli sem vekur athygli: „Menn lömdu eiginkonur sínar og stundum börnin“

Hinn svakallaði gamli skóli fær á baukinn í pistli eftir blaðamanninn Kristinn H. Guðnason á vef DV. Í pistlinum, sem hefur vakið talsverða athygli, skrifar Kristinn um gamla Ísland þar sem enginn sagði neitt, sama hvað gekk á.

„Svona var gamla Ísland. Menn lömdu eiginkonur sínar og stundum börnin, drukku frá sér allt vit og peninga, samkynhneigðir hírðust í skápum sínum í þunglyndi og skömm, lesblind börn voru sett í tossabekki og börn með athyglisbrest á uppeldisheimili úti á landi þar sem einhverjir öfuguggar fengu að níðast á þeim. Og enginn sagði neitt,“ skrifar Kristinn.

„Ef konu var nauðgað, sagði hún ekki neitt. Ef ungur maður glímdi við þunglyndi, sagði hann ekki neitt. Ef foreldrar misstu börnin sín í hræðilegu slysi, sögðu þau ekki neitt. Þetta var þjóðfélag sem var algerlega vanhæft til að takast á við þau vandamál sem fólk var að glíma við, og það var nóg af þeim. Hin alltumlykjandi þrúgandi þögn og dómharka kæfði allt.“

Kristinn segir í pistlinum að í dag séu öfl sem vilji hverfa aftur til þessa tíma. „[Öfl] sem emja og óa í hvert skipti sem einhver lýsir reynslu sinni. Í hvert skipti sem minnihluta- eða undirmálshópur nær einhverjum gagnlegum áfanga í baráttu sinni,“ segir hann.

„Í hvert skipti sem gömlum kerfum er breytt til að mæta þörfum allra. Í hvert skipti sem brotnar örlítið úr gamla Íslandi. Þessi viðhorf heyrast í almennri umræðu, í athugasemdakerfum, í útvarpi og meira að segja í stjórnmálunum.“

Kristinn segist ekki vilja stíga skrefið til fulls aftur inn í þennan tíma. „Ég er sáttur við að búa í „kerlingavæddum heimi“ þar sem börn fá rétta lyfjagjöf við vandamálum sínum, þar sem syrgjandi fólk fær áfallahjálp og þar sem hommar geta farið áhyggjulausir í sleik úti á götu.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing