Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, lýsti formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Íslands í Salnum í Kópavogi í dag. Hann boðaði til fundarins á sunnudag. „Forseti á að vera í nánum tengslum við alla landsmenn og ekki í liði með einum eða neinum,“ sagði Guðni á fundinum.
Guðni segir í samtali við mbl.is að sýn á embættið sé að forseti eigi ekki að berjast fyrir ákveðnum málstað. „Mín sýn er að forseti standi utan fylkinga í átakamálum samtímans,“ segir hann.
Fólkið í landinu á að finna að forsetinn sé ekki í einni fylkingu frekar en annarri, en að hann verði fastur fyrir þegar á þarf að halda og leiði mál til lykta þegar þau komast í öngstræti. Forsetinn er fyrst og fremst málsvari allra Íslendinga.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var 2. og 3. maí, myndu 38 prósent þeirra sem afstöðu taka kjósa Guðna í embætti forseta Íslands ef kosið væri nú.
45 prósent myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í embættið en ellefu prósent myndu kjósa Andra Snæ Magnason. Aðrir njóta minni stuðnings.
Kosningarnar fara fram þann 25. júní og forsetaframbjóðendur þurfa að tilkynna um framboð fimm vikum áður, eða 21. maí næstkomandi.