Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir samúðarkveðju til fjölskyldu og vina Sam Panopoulos, sem er þekktur sem upphafsmaður þess að setja ananas á pizzur. Þetta kemur fram á Facebook-síðu forsetans.
Sjá einnig: Upphafsmaður ananaspizzunnar segir Guðna til syndanna: „Hann ætti að vita betur“
Fjölmiðlar um allan heim hafa fjölluðu um ummæli Guðna Th. Jóhannessonar um ananas á pizzur í febrúar. Málið hófst þegar Guðni svaraði spurningum nemenda í Menntaskólanum á Akureyrir og sagðist helst vilja banna ananas á pizzu. Vísir greip ummælin á lofti og birti frétt sem klauf þjóðina í herðar niður — fólk var annað hvort hjartanlega sammála eða mjög ósammála forsetanum.
Málið rataði svo í heimsfréttirnar og margir af helstu fjölmiðlum heims fjölluðu um málið. Upphafsmaður þess að setja ananas á pizzu blandaði sér svo í málið í viðtali á vef kanadísku útvarpsstöðvarinnar CBS Radio.
Hinn 82 ára gamli Sam Panopoulos er talinn vera upphafsmaður pizzu sem flestir kalla Havaí en hún er með skinku og ananas. Í viðtali útvarpsstöðvarinnar sagði hann að Guðni hafi ekki einu sinni verið fæddur þegar hann fann upp á því að setja ananas á pizzu.
„Af fréttum að dæma var Sam þessi sómamaður, með skopskynið í lagi,“ segir Guðni í kveðju sinni.
Á óbeinan hátt lágu leiðir okkar saman fyrr á þessu ári þegar ég spjallaði í gamni við nemendur Menntaskólans á Akureyri um pítsur og þetta tiltekna álegg – sem reyndar væri best að banna ef út í það væri farið.
Guðni segir að sagan af „stóra ananasmálinu“ sé gott dæmi um það að við búum í heimsþorpi. „Góðlátlegt grín mitt á Akureyri varð fréttaefni um víða veröld,“ segir hann.
„Um leið gaf sú óvænta athygli ágætis tilefni til að fjalla um valdmörk þjóðarleiðtoga og frelsi fólks til að gera það sem það vill – svo lengi sem það bitnar ekki á öðrum.“
Guðni endar færslu sína að birta á ný yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir að fjölmiðlar um allan heim höfðu fjallað um málið:
„Mér finnst ananas góður, bara ekki á pítsu. Ég get ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pítsuna sína. Mér finnst gott að hafa ekki þau völd. Forsetar eiga ekki að hafa alræðisvald. Ég myndi ekki vilja gegna þessa embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar. Ég myndi ekki vilja búa í þannig landi. Ég mæli með fiskmeti á pítsu.“