Fréttir af því að Atlantsolía hafi afnumið afslætti og lækkað verðið á afgreiðslustöð sinni í Kaplakrika í Hafnarfirði fara öfugt ofan í meðlimi hópsins Costco – gleði á Facebook. Þar gagnrýnir fólk að Atlantsolía lækki verð aðeins á einni afgreiðslustöð — þeirri sem er næst Costco.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að verðið hjá Atlantsolíu í Kaplakrika verði það sama og hjá Costco. Bensínlítrinn fór úr 211,9 krónum niður í 189,9 krónur og dísillítrinn fór úr 204,3 krónum í 182,9 krónur.
Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu, bendir á í frétt Fréttablaðsins að ólíkt Costco þurfi ekki að framvísa meðlimakorti og að stöðin í Kaplakrika sé opin allan sólarhringinn.
Við afnemum alla afslætti og bjóðum upp á lægsta eldsneytisverð á landinu, án nokkurra skilyrða.
Engilbert Arnar, stjórnandi hópsins Costco – gleði, deilir frétt um að Atlantsolía lofi lægsta eldsneytisverði Íslands og spyr hvort hreinleg hvort það sé 1. apríl í dag. „Ég persónulega ætla að halda með Costco,“ segir hann og þakkar verslunarrisanum fyrir að loma til landsins og veita öðrum samkeppni.
Sjá einnig: Ringlaðir Costco-kúnnar dældu röngu eldsneyti á bílana sína
Fjörugar umræður skapast í kjölfarið og bent er á að dapurt sé að bjóða ekki upp á sama verð allstaðar á landinu. Þá velta margir tímapunktinum fyrir sér og hrósa Costco fyrir að verða til þess að aðrir lækki hjá sér verð.
Meðlimum hópsins finnst neytendur vera að greiða mismuninn á verði milli afgreiðslustöðva og aðrir velta fyrir sér af hverju Atlantsolía tók ekki af skarið fyrr. Ljóst er að flestir meðlimir hópsins sem taka til máls styðja Costco og ein segist ætla að halda sig við Costco, enda sé ekki hægt að kaupa gómsæt mangó á Atlantsolíu.