Harry Bretaprins óttast um öryggi Meghan Markle, kærustu sinnar, og er afar miður sín að geta ekki verndað hana fyrir ágangi fjölmiðla. Hann segir að fjölmiðlar hafi gengið of langt síðastliðna viku; bæði í tilraunum til að afla frétta um hana og í umfjöllun þeirra um hana.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem breska konungsfjölskyldan sendi frá sér í morgun. Hún hefur vakið gríðarlega athygli. Sjaldgæft að fjölskyldan sendi frá sér efni af þessu tagi.
Ekki er langt síðan að fregnir bárust af því að Harry og Markle væru að stinga saman nefjum en hvorugt þeirra hefur gengist við orðrómnum fyrr en nú. Markle er leikkona og einna helst þekkt fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttaröðinni Suits.
Um klukkustund eftir að yfirlýsingunni var deilt á Facebook-síðu fjölskyldunnar höfðu rúmlega 37 þúsund manns lækað hana, rúmlega 2.600 manns skilið eftir athugasemd og rúmlega fjögur þúsund manns deilt færslunni.
Í yfirlýsingunni segir að Harry hafi í gegnum tíðina reynt að þykkja skrápinn til að eiga auðveldara með að takast á við það sem kemur fram um hann í fjölmiðlum.
„En undanfarna viku hefur verið farið yfir strikið. Kærasta hans, Meghan Markle, hefur orðið að þolanda ofbeldis og áreitni,“ segir í yfirlýsingunni sem Harry bað um að yrði birt í von um að fjölmiðlar virði einkalíf þeirra.
Þar segir einnig að sumt hafi verið sýnilegra en annað, til að mynda fréttir í dagblöðum og á vefmiðlum. Annað hefur almenningur ekki séð, líkt og barátta konungsfjölskyldunnar við að „ærumeiðandi sögur“ komist ekki í blöðin. Þá hefur móðir hennar þurft að troðast framhjá ljósmyndunum til að komast inn í hús sitt og hafa blaðamenn og ljósmyndarar einnig reynt að komast inn á heimili hennar. Þá hefur fyrrverandi kærasta Markle verið mútað.
Konungsfjölskyldan segir ekki rétt að Markle þurfi að þola þetta á fyrstu mánuðum sambands þeirra. Þau segja að Harry viti vel hver viðbrögðin við yfirlýsingunni verði, að þetta sé það sem fylgi því að vera kærasta prinsins og „þetta sé hluti af leiknum.“
„Hann er verulega ósammála. Þetta er ekki leikur, þetta er líf hennar og hans,“ segir í yfirlýsingunni.
Díana, móðir Harry, lést árið 1997 eftir að æsifréttaljósmyndarar eltu Mercedes-bíl hennar og unnusta hennar þegar þau yfirgáfu hótel í París. Ökumaðurinn keyrði á steinsúlu í undirgöngum með þeim afleiðingum að allir í bílnum létu lífið að undanskildum lífverðinum Trevor Rees-Jones.