Kona sem var rænt, byrlað eiturlyfjum og lokuð inni í neðanjarðarbyrgi í sex daga af manni sem hefur verið kallaður „hinn sænski Josef Fritzl“ – óttaðist að hún myndi aldrei sjá dagsins ljós aftur.
Isabel Eriksson, dulnefni sem notað er til að vernda raunverulegt nafn hennar, var valin af Dr. Martin Trenneborg, sem gaf henni jarðarber með nauðgunarlyfinu Rohypnol, sem hluta af sjúku plani hans í september árið 2015. Hann ók henni síðan 560 kílómetra frá íbúð hennar í Stokkhólmi að afskekktu býli í Suður-Svíþjóð þar sem hann ætlaði að halda henni sem kynlífsþræl.
Málið vakti gríðarlega athygli í Svíþjóð og í raun Evrópu allri en í réttarhöldunum árið 2016 sagði Isabel að Trenneborg hefði sagt við hana að hurðin væri eins og „bankahólf” og að hún myndi „aldrei geta opnað hana.“ „Svo spurði hann mig hvort ég hefði einhverjar óskir, hvort hann ætti að stækka bunkerinn […] því ég myndi búa þar í mörg ár,“ bætti hún við.
Stígur fram í sænskri heimildarþáttaröð
Nú hefur Isabel, sem starfaði sem fylgdarkona á þeim tíma, opnað sig um þessa skelfilegu lífsreynslu í nýrri heimildarmynd. Í sænsku þáttaröðinni „Neðanjarðarbyrgið“ sem er á streymisveitunni Viaplay, útskýrir hún hvernig hún vaknaði allt í einu inni í hljóðeinangruðum klefa með nál í handleggnum.
„Ég varð gjörsamlega skelfd. Ég fann fyrir hjálparleysi,“ segir Isabel og bætir við að hún vissi ekki hvort hún væri í ofan- eða neðanjarðar. Trenneborg, sem starfaði sem sjálfstætt starfandi læknir, er talinn hafa byggt bunkerinn sjálfur, byrjaði á því árið 2010. Neðanjarðarbyrgið var með 32 cm þykkum steypuveggjum og í því var svefnherbergi, salerni og fullbúið eldhús.
Stunda kynlíf, þrífa og elda
Í réttarhöldunum árið 2016 lýsti Isabel því að Trenneborg hefði verið með skýra áætlun um að halda henni innilokaðri „sem kærustu“, að „stunda kynlíf tvisvar eða þrisvar á dag, þrífa og elda.“
„Hann kom inn um hálfátta á morgnana og þá fór hann með mig út í garðinn sem hann byggði.“ Þá lýsti hún því hvernig hann yfirgaf hana síðan eina í neðanjarðarbyrginu og kom aftur eftir vinnu um sexleytið. Trenneborg tók einnig sýni frá henni, meðal annars blóðsýni, sem hann sendi í rannsókn á rannsóknarstofu á vinnustað sínum. Síðar játaði hann að hann gerði þetta til að ganga úr skugga um að hún væri ekki með kynsjúkdóma.
„Hann sagði að hann vildi stunda óvarið kynlíf með mér. Ég fékk pillur frá honum, getnaðarvarnarpillur, og hann sagði að hann vildi ekki að ég yrði ólétt,“ bætti Isabel við.
Trenneborg, sem nú er 47 ára, var að lokum handtekinn eftir að hann fékk taugaáfall þegar fréttir bárust af hvarfi Isabel og keyrði hana til Stokkhólms þar sem þau fóru inn á lögreglustöð í borginni.
Hann hafði sagt henni að segja rannsóknarlögreglumönnum sögu til að sannfæra þá um að hún væri örugg og í engri hættu, en þeir urðu tortryggnir – sem betur fer – og áttu við hana samtal fjarri Trenneborg en þá brotnaði Isabel niður og sagði þeim alla sólarsöguna.
Fékk aðeins 8 ára fangelsisdóm
Trenneborg hafði ráðið Isabel, sem vann sem fylgdarkona, og hrifsað hana inn í bíl sinn eftir að hafa hitt hana í Stokkhólmi.
Þrátt fyrir að hann hafi upphaflega verið ákærður fyrir nauðgun, komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ófullnægjandi sönnunargögn væru til staðar til að sýna fram á að hann hefði brotið á henni kynferðislega, og hann var dæmdur fyrir mannrán og hlaut átta ára fangelsisdóm.
Eðli glæpsins ásamt „neðanjarðarbyrginu“ þar sem hann hélt Isabel varð til þess að hann var kallaður „Josef Fritzl Skandinavíu“. Austurríkismaðurinn Fritzl var dæmdur í fangelsi árið 2009 fyrir nauðgun og morð eftir að hafa haldið dóttur sinni, Elizabeth, lokaðri í kjallara undir heimili sínu í 24 ár.
Í viðtali árið 2017 lýsti Isabel því hvernig hún vaknaði við að sjá „handjárn og mann sitjandi á stól við hliðina á sér, horfandi á hana.“
„Ég man að hann gaf mér jarðarber. Það man ég. Það er mjög erfitt að tala um það. En eftir það sofnaði ég, og allt varð svart.“
Vinnur sig úr áfallinu með OnlyFans-síðu
Eriksson hóf síðan OnlyFans-síðu til að vinna úr áfallinu – þar sem notendur gátu greitt 12 pund á mánuði til að sjá fyrrum fylgdarkonuna á myndum sem hún lýsti sem „listfengum“ og „smekklegum.“ Í einkaviðtali sagði Isabel við MailOnline í fyrra: „OnlyFans-síðan mín er leið mín til að vinna úr áfallinu sem ég glími enn við, jafnvel eftir öll þessi ár.
„Ég hef alltaf verið mjög skapandi og að sitja fyrir á þessum myndum, sem eru listfengar og smekklegar, er mín leið til að takast á við streituna sem ég upplifði.
„Ég er ekki nakin á neinni mynd, ég er í nærfötunum og myndirnar eru alls ekki klámfengnar.
„Þær eru fallegar, tilfinningaþrungnar myndir sem endurspegla skapandi listástríðu mína og hafa hjálpað mér að takast á við alvarlega áfallastreituröskunina sem ég sat eftir með.
„Við ættum að vera stolt af líkama okkar, og við erum öll listaverk, og við erum öll falleg og ef þú vilt sýna það bæði þér og öðrum, þá er það frábært.“