Auglýsing

Jóhannes Þór segir tæknimenn hafa fundið „græjur til upplýsingaöflunar“ í tölvu Sigmundar

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir að tæknimenn Rekstrarfélags Stjórnarráðsins hafi farið yfir tölvubúnað Sigmundar Davíðs í fyrra eftir að hann fór að gruna að brotist hefði verið inn í tölvu hans. Hann segir að tæknimenn hafi fundið „græjur til upplýsingaöflunar.“

Þetta er á skjön við svör Rekstrarfélagsins í dag. Þar kemur fram að beiðni frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi borist 1. apríl á þessu ári um að skoða tölvu hans vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit starfsmanna Rekstrarfélagsins fundust ekki staðfest ummerki um að innbrot hefði átt sér stað.

Sjá einnig: Rekstrarfélag Stjórnarráðsins fann engin ummerki um innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fór fram um helgina að brotist hafi verið inn í tölvu hans. Fór hann yfir það hvernig fylgst var með honum og hann eltur vegna málsins, enda hagsmunirnir gríðarlegir. „Ég gerði alltaf ráð fyrir að það væri fylgst með því sem ég segði í símann,“ sagði hann.

Ég veit að það var brotist inní tölvuna hjá mér, ég lét skoða það.

Jóhannes Þór segir í samtali við Nútímann að málið hafi ekki verið kært til lögreglu heldur aðeins unnið innan Stjórnarráðsins þar sem það hafi sína eigin öryggisdeild sem embætti Ríkislögreglustjóra hafi umsjón með.

Að sögn Jóhannesar ráðlögðu tæknimenn Sigmundi að hætta að nota tölvuna sína. Jóhannes segir að tölvan sín hafi ekki verið könnuð þrátt fyrir að í ljós hefði komið að einhver hefði reynt að ná upplýsingum úr tölvu Sigmundar.

Aðspurður sagði Jóhannes að málið hafi komið upp árið 2015. Hann viti þó ekki nákvæmlega hvenær ársins það hafi verið þar sem hann hafi sjálfur ekki alveg inni í málinu á sínum tíma.

Aðspurður segist Jóhannes ekki geta sagt til um hvort ríkisstjórnin hafi verið upplýst um innbrot í tölvu Sigmundar. Þá veit hann ekki hvort vitað sé hverjir komu hugbúnaðinum fyrir.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing