Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í síðustu viku að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Þá velti hún fyrir sér hvort eðlilegt væri að börn hælisleitenda yrðu sett í sérstakan skóla þar til ákvörðun um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi liggi fyrir.
Sjá einnig: Logi segir að hugtakið „sokkinn kostnaður“ eigi betur við um Sveinbjörgu Birnu en nám barna hælisleitenda
Ummæli Sveinbjargar hafa verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af flokksfélögum hennar, og nú síðast sagði Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við RÚV að ummælin væru bæði óheppileg og klaufsk.
Már Ingólfur Másson, grunnskólakennari í Vallaskóla á Selfossi, blandaði sér í umræðuna á Twitter í dag og sagði frá fjölskyldu sem kom frá Sýrlandi til Selfoss í lok janúar. „Elsti strákurinn kom í bekkinn minn. Þrír strákar komu í skólann,“ segir hann á Twitter.
Engin úr fjölskyldunni talaði ensku en mamman hafði unnið sem kennari í Sýrlandi. Fræðslunet Suðurlands sá um fullorðinsfræðslu og í Vallaskóla voru nýbúakennarar með auka íslensku fyrir strákana. Þeir voru líka mikið með bekknum.
Már segir að nemandinn sem kom í bekkinn hans hafi setið með árganginum í flestum tímum þegar leið á veturinn og lært íslensku með þeim. „Skipti engu hvort það var enska, danska, samfélagsfræði eða stærðfræði. Hann fór líka í öll verkleg fög,“ segir Már.
„Engin úr árgangnum upplifði það að missa af kennslu útaf honum, heldur voru þau að græða heilmikið á því að í 3. skipti á stuttum tíma kom nemandi í árganginn sem var að læra tungumálið frá grunni og þau hjálpuðu til. Hann fór svo með í útskriftarferðina, tvær nætur í burtu frá fjölskyldunni með vinum og bekkjarfélögum; riverrafting, paintball, kajak, adrenalíngarðurinn og allt dæmið.“
Már segir að drengurinn hafi svo sungið fyrir alla á arabísku í útskriftinni. „Hitti hann um daginn úti í búð og hann talar orðið ótrúlega góða íslensku. Foreldrar þeirra lögðu alltaf rosalega mikla áherslu á að þeir myndu læra íslensku fyrst. Sögðu að hitt kæmi þá líka,“ segir Már á Twitter og lýkur þessari yfirferð á þessu tísti hér:
Þessi fjölskylda er svo langt frá því að vera sokkinn kostnaður í skólakerfinu. Allir sem komu nálægt þessu eru betri eftir þessa reynslu
— Már Ingólfur Másson (@maserinn) August 7, 2017